,,Friðarsúlan hefur farið frá því að vera frá­bært lista­verk í það að vera eitt­hvað enn þá meira og eiga sér vísan stað í hjarta fjöl­margra borgar­búa. Það er mjög há­tíð­leg stund að tendra hana,“ segir Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri sem kveikir á friðar­súlunni í Við­ey í kvöld klukkan 20, undir lagi Johns Lennon, Imagine. ,,Ég hef fengið bréf fá fólki í sorgar­ferli sem sækir styrk í friðar­súluna og mér finnst hún verða fal­legri og fal­legri með hverju árinu sem líður.“

Þú kveikir sjálfur á súlunni klukkan 20 í kvöld?

,,Já, það er alltaf sér­stök stund, en kannski aldrei sér­stakari en í fyrra, því þá vorum við Arna konan mín og krakkarnir og ferju­maður og tækni­menn ein við­stödd at­höfnina vegna Co­vid-19. Það var alveg mögnuð stund og stillt veður og heiður himinn, nánast eins og ó­raun­veru­legur at­burður.

Friðarsúlan er tendruð 9. októ­ber ár hvert.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Hefur þú eitt­hvað sam­band við Yoko Ono?

,,Fyrst og fremst í tengslum við tendrun súlunnar, en það hefur alltaf verið mjög gott á milli okkar. Yoko er einn af ör­fáum heiðurs­borgurum Reykja­víkur.“

Hefur hún boðað komu sína aftur til Ís­lands til að vera við tendrun friðar­súlunnar, hún er jú orðin 88 ára gömul.

,,Já hún er að eldast, og mér skilst að þetta hafi nánast verið einu ferðirnar sem hún fór á síðustu árum, það var hingað til lands í tengslum við tendrun friðar­súlunnar. En hún treysti sér ekki til þess lengur, hún fylgist með og við fáum reglu­lega skila­boð frá henni. Hún býður til dæmis 500 manns út í eyjuna í kvöld og myndi bjóða fleirum ef ekki væru sam­komu­tak­markanir vegna Co­vid-19. Ég er ó­trú­lega þakk­látur fyrir þetta verk­efni og stoltur af Friðar­súlunni, sem er verk á heims­mæli­kvarða“.

Þú hefur hitt hana marg­oft, hvernig kemur hún þér fyrir sjónir?

Hún er svo­lítið eins og fólk sem maður kynnist fyrst í sjón­varpi, hún er miklu smá­vaxnari í eigin per­sónu en ég hafði gert mér grein fyrir. Hún er mikil til­finninga­manneskja, með stórt og hlýtt hjarta sem ber mikla um­hyggju fyrir um­heiminum og Reykja­vík.“

Friðarsúlan er hugar­fóstur Yoko Ono.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Friðarsúlan hugar­fóstur Yoko Ono

Friðarsúlan í Við­ey er talin eitt af merkustu lista­verkum Reykja­víkur. Hún er hugar­fóstur eigin­konu Lennons, hinnar japönsk­ættuðu Yoko Ono og hugsuð sem leiðar­ljós fyrir heims­frið. Friðarsúlan var tendruð í fyrsta sinn á af­mælis­degi Lennons árið 2007, en hún er tákn­mynd bar­áttu Lennons og Yoko Ono fyrir friði á jörð. Ono átti sjálf hug­myndina að friðar­súlunni, og hún er fjár­mögnuð af henni, Reykja­víkur­borg og Orku­veitu Reykja­víkur, sem einnig greiðir rekstrar­kostnaðinn. Um er að ræða ljós­kastara sem lýsir upp í himininn. Friðarsúlan logar frá sólar­lagi til mið­nættis frá fæðingar­degi Lennons í dag, 9 októ­ber til 8. desember, sem er dánar­dagur hans. Einnig logar súlan frá gaml­árs­degi og fram á þrettándann og í eina viku í kringum jafn­dægur á vori.

Einnig má kveikja á súlunni við sér­stök til­efni. Til þess þarf leyfi frá lista­konunni.

Eins og áður segir verður sér­stök at­höfn í Við­ey í kvöld. Við­eyjar­stofa verður opin þar sem hægt verður að fá léttar veitingar fyrir og eftir tendrun.

Hjónin Yoko Ono og John Lennon.
Fréttablaðið/Getty