Við Andri Freyr Arnarsson (Framfari) dveljum í Dalbæ eins og er, við tökur á stuttmyndinni Eldingar eins og við og ákváðum að slá í leiðinni upp tónleikum fyrir fólkið í sveitinni,“ segir Kristín Björk Kristjánsdóttir (Kira Kira) glaðlega. Hún er að tala um menningarviðburð í félagsheimilinu Dalbæ á Snæfjallaströnd á sunnudaginn, 12. júlí, klukkan 15.

„Við erum fimm sem komum fram á tónleikunum, allt eldingar - tónlistarfólk sem leikur í myndinni,“ heldur hún áfram. „Með mér verða sem sagt Framfari, Teitur Magnússon söngvaskáld, Hermigervill og Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir sem spilar á Gong og er frumkvöðull í hljóðböðum á Íslandi. Við Teitur erum líka að gefa út smáskífu sem við fögnum með frumflutningi á litlu samstarfsverkefni á sunnudaginn.“

Andri Freyr Arnarsson og Kristín Björk Kristjánsdóttir á slóðum forfeðra sinna og mæðra á Snæfjallastönd við norðanvert Ísafjarðardjúp. Mynd/Davið Alexander Corno

Auk tónlistarflutnings verður svo opnuð örsýning í Dalbæ um alvarlega atburði sem gerðust við Vébjarnarnúp, milli Snæfjallastrandar og Grunnavíkur, fyrir rúmum 100 árum, eða veturinn 1920. Þau Kristín og Andri Freyr eiga bæði ættir að rekja til svæðisins sem þau eru stödd á. „Andri Freyr átti heima fyrstu árin sín á Tyrðilmýri, þar sem vegurinn endar hér á Snæfjallaströndinni, þar lærði hann að ganga og tala og á mynd af sér að dansa á eldhúsgólfinu. Þannig að það er mikils virði að fá að taka myndina á þessum slóðum. Langalangafi minn og amma bjuggu hér í Unaðsdal, Kolbeinn og Sigurborg. Ég kom frekar seint hingað en er alveg dolfallin yfir þessari paradís. Við Andri Freyr erum svo líka að gera vögguvísuplötu saman og ætlum að leyfa fólki að heyra eitthvað af henni í Steinshúsi við Kaldalón 19. júlí.

Handrit stuttmyndarinnar Eldingar eins og við er eftir Kristínu Björk sjálfa, hún kveðst hafa verið að nostra við það í níu ár. Það byggi á sögum kjarnakvenna sem eru miklir naglar og líka blóm.

„Mér þykir afar vænt um að fá að vera hér í Unaðsdal þar sem formæður mínar bjuggu. Ég kalla aðeins í þær þegar ég loka augunum og hugsa líka - hvaðan kemur þessi kjarni í kvendinu? Er það tímalaus orka sem drífur manneskjuna áfram til að láta gott af sér leiða? Sigurborg langalangamma mín réri ein á árabáti í snjóbyl um næturtíma yfir Ísafjarðardjúpið til Súðavíkur til að taka á móti barni, hún var ljósmóðir. Úr hverju er svoleiðis kona búin til? Mér finnst spennandi að hugsa til einhvers konar sameiginlegs þráðar á milli hennar og okkar hinna yngri sem göngum á jörðinni í dag."

Ætlarðu að fara eitthvað inn í þessa sögu á tónleikunum á sunnudaginn, eða er hún bara meðal áhrifavalda þinna í myndinni? spyr ég. „Mér finnst allt vera tengt og yfirleitt flæða umfjöllunarefnin hjá mér áreynslulaust á milli miðla."