Falleg stund átti sér stað í Hljómskálagarðinum nýlega þegar Shohei Watanabe veitti viðtöku kvartmilljónar króna styrk frá Íslensk-japanska félaginu fyrir þýðingu sína á Skugga-Baldri eftir Sjón.

Það var í fyrsta sinn í vor sem félagið auglýsti eftir umsóknum um slíkan styrk. Um skyldi vera að ræða þýðingu á bókmenntaverki úr japönsku yfir á íslensku eða öfugt. Val á verki var í höndum umsækjenda en þar sem um sumarverkefni var að ræða þurfti verkáætlunin að rúmast innan ákveðins tímaramma. Þannig var gert ráð fyrir að verkið yrði tilbúið til útgáfu í lok sumarsins eða í síðasta lagi um mánaðamótin september/október.

Umsóknarfrestur rann út 13. júlí í ár. Alls bárust sex umsóknir og voru allir umsækjendur boðaðir í viðtal.

Íslensk-japanska félagið var stofnað árið 1981. Tilgangur félagsins er að auka og efla menningarsamskipti milli landanna tveggja, kynna Ísland í Japan og Japan á Íslandi ásamt því að auka gagnkvæma þekkingu og skilning þjóða þessara tveggja landa.