Simon Wiesenthal var sæmdur riddarakrossi bresku krúnunnar fyrir ævilangt starf í þágu mannkyns þennan mánaðardag árið 2004.

Wiesenthal var byggingaverkfræðingur að mennt og starfaði líka sem rithöfundur. Hann var austurrískur gyðingur og var í fjögur ár í útrýmingarbúðum nasista, frá 1941 til 1944 - en lifði helförina af. 

Eftir vistina í útrýmingarbúðunum vóg Wiesenthal einungis 40 kíló, Var hann þó 180 sentimetrar að hæð. Þegar hann hafði náð heilsu eftir þessar hremmingar helgaði hann líf sitt því að safna upplýsingum um nasistaforingja og leita þá uppi svo hægt væri að sækja þá til saka fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Hann stofnaði meðal annars skjalasafn um gyðinga, árið 1947 í Linz í Austurríki, þar sem bæði hann og aðrir söfnuðu saman upplýsingum og aðstoðuðu fólk við að leita að týndum ættingjum sínum eftir stríðið.

Simon Wiesenthal-stofnunin var nefnd eftir honum,  hún stendur vörð um réttindi gyðinga og hefur haft uppi á nokkrum nasistaforingjum frá því að hún var stofnuð árið 1977. Á áttunda áratugnum blandaði Wiesenthal sér í austurísk stjórnmál. Hann hélt því fram að allnokkrir ráðherrar í ríkisstjórn Brunos Kreisky hefðu verið nasistar. 

Wiesenthal fékk margar morðhótanir um ævina en hann lést í svefni í Vín í Austurríki árið 2005 og var grafinn í borginni Herzliya í Ísrael.