Veröld vættanna – Bergrisinn vaknar, er bók sem kom út í byrjun ársins og hefur verið dreift til allra barna í 1. til 3. bekk á Suðurnesjum, að sögn Þuríðar Halldóru Aradóttur, forstöðumanns Markaðsstofu Reykjaness.

„Við viljum ná til barnanna og veita þeim upplýsingar um svæðið á einfaldan og skemmtilegan hátt. Fjórar hollvættir í bókinni hjálpa til þess. Þær eru Bergrisinn sem er alvitur og þekkir jarðsöguna mjög vel, Berglind, vættur alls lífs á landi og Brimir sem vakir yfir lífinu í sjónum og fjörum svæðisins. Skottan er sú fjórða, hana þyrstir í þekkingu og langar mikið að aðstoða hinar – en árangurinn er misjafn.“

Reykjanes jarðvangur gefur bókina út, auk litabókar og ferðakorts um Reykjanesskagann, en Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður og Silvia Pérez teiknari, gæða vættirnar lífi, að sögn Þuríðar.

Athyglin peninga virði

Þuríður segir eldgosið og nýja hraunið hafa gildi bæði fyrir ferðaþjónustu og fræðasamfélag. Hún nefnir að á fyrstu þremur vikunum eftir að gos hófst hafi verið birtar um 16.000 umfjallanir um Reykjanesið og eldgosið. Virði þeirra sé áætlað yfir sex milljarðar.

„Við erum að ná langstökki inn í framtíðina hvað varðar markaðssetningu á áfangastað, þökk sé eldgosinu, þessi atburður gefur Reykjanesskaganum einstakt tækifæri.“

Kápa hinnar nýju bókar.

Einstakt á heimsvísu

Reykjanes jarðvangur er vottaður UNESCO Global Geopark. Slíka viðurkenningu fá einungis jarðminjafyrirbæri sem eru einstök á heimsvísu.

„Hér sjáum við Mið-Atlantshafshrygginn koma á land og hvernig afleiðingar flekaskilanna eru á afmörkuðu svæði, með jarðhita, jarðskjálftum og nú eldvirkni. Gosið í Fagradalsfjalli er skólabókardæmi um það sem gerist á flekaskilum eins og okkar,“ bendir Þuríður á.

Hún segir ekki síður merkilegt hvernig menningin og samfélagið á Suðurnesjum hefur þróast í takti við landslag og náttúru svæðisins.

„Þar liggja sögurnar sem við segjum í dag.“

Í Reykjanes jarðvangi hafa verið skilgreindir 55 jarðminjastaðir sem tengjast flekaskilunum, að sögn Þuríðar.

„Á þeim lista eru meðal annars Brú milli heimsálfa, þar sem flekaskilin eru skýr, jarðhitasvæðið við Gunnuhver, Eldvörp, þar sem síðast gaus fyrir um 800 árum, Hvalsneskirkja, sem byggð er úr grjóti af svæðinu og Garðskaginn með vitanum sem hefur verið leiðarljós báta og skipa í áratugi,“ segir hún.

„Eldgosið í Fagradalsfjalli og hraunið sem það myndar er jarðminjastaður númer 56.“