Hulda Leifsdóttir er stödd á myndlistarsýningu í Norræna húsinu þegar ég trufla hana með símhringingu til að forvitnast um erindi hennar til Íslands frá Finnlandi, en þar hefur hún búið frá árinu 1993. Í ljós kemur að hún hefur tekið með sér tólf abstrakt-málverk til landsins og ætlar að opna sýningu sem hún nefnir Umbreyting á sunnudaginn 15. mars, í Galleríi göngum í Háteigskirkju. Eiginmaður hennar, Tapio Koivukari verðlaunarithöfundur, sem er ókominn til landsins þegar þetta samtal fer fram, mun lesa þar úr ljóðabók sinni Innfirðir. Hún er fyrsta bókin sem hann skrifar á íslensku en hann talar málið mjög vel, að sögn Huldu. „Við völdum að tala alltaf íslensku okkar á milli,“ útskýrir hún.

Hulda er fædd og uppalin á Ísafirði og kveðst hafa sýnt þar fyrst. „Ég hef sýnt í Finnlandi, á Íslandi og á Álandseyjum. Er starfandi listamaður og kenni flókagerð með, bæði í lýðháskóla og kvöldskóla, var flókalistamaður í allmörg ár,“ segir Hulda sem á 32 ára listaferil að baki og kveðst hafa fengist við margt á þeim tíma, meðal annars ljósmyndun. „Núna er ég bara í abstrakt málverki með akrýllitum.“

Eitt af málverkunum hennar Huldu.

Hvar skyldi hún hafa kynnst manninum sínum, Tapio Koivukari? „Í heimabæ, mínum Ísafirði. Þar fékk hann starf sem smíðakennari við grunnskólann, hann er sjálfmenntaður handverksmaður. Tapio hefur haft áhuga á Íslandi alveg frá því hann var unglingur. Sá áhugi kviknaði þegar hann fór að lesa Laxness. Sálin hans sagði honum alltaf að fara norðvestur og hann fór norðvestur, þess vegna lenti hann á Ísafirði og hitti mig! Við giftum okkur í Súðavíkurkirkju og bjuggum nokkur ár á Ísafirði, þá sagði listamaðurinn ég: „Nú vil ég ævintýri, ég vil fara til þíns heimalands og prófa að búa þar.“ Það var látið eftir mér og ég hef ekkert flutt heim síðan, hugsa að ég verði gömul í Finnlandi, það er svo gott að búa þar. Við erum í fallegum 35.000 manna bæ sem heitir Rauma og er við vesturströndina, þaðan er mikill timburútflutningur og þar eru skipasmíðastöð og pappírsverksmiðja.“

Tapio Koivukari hefur skrifað sjö sögulegar skáldsögur sem gerast á vesturströnd Finnlands á fyrri öldum og tvær sem gerast á Íslandi á 17. öld. Fjórar þessara bóka hafa komið út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar. Auk þess hefur Koivukari sent frá sér smásögur, leikrit og ljóð og þýtt fjölda íslenskra skáldverka á íslensku og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars ein af stærstu bókmenntaverðlaunum Finnlands, Runebergsverðlaunin. Svo hefur hann líka haldið áfram að smíða í lausamennsku, að sögn Huldu. „Hann er alltaf að hjálpa fólki og hefur verið að skera út,“ lýsir hún. „Á sumrin erum við oft að gera við gamla glugga, hann smíðar og ég mála. Við vinnum voða mikið saman.“

Sýningin Umbreyting verður opnuð klukkan 12 á sunnudaginn, ef allt fer samkvæmt áætlun, og upplestur Tapio úr bókinni Innfirðir hefst klukkan 13. Þar fjallar hann um kynni sín af Vestfjörðum og Íslandi, ásamt ferðum um aðra heimshluta, uns hann staðnæmist í heimahögunum á vesturströnd Finnlands. Í bókarlok ferðast skáldið um innfirði hugans.