Jón Stefánsson, kennari á Hvolsvelli, hlaut í gær viðurkenningu fyrir að hafa skarað fram úr við að nota náttúruna á heimaslóðum nemenda sinna til kennslu, rannsókna og upplifunar. Verðlaunin eru kennd við Sigríði í Brattholti og Jón tók við þeim úr hendi Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra. „Með elju sinni, ástríðu og hugmyndaauðgi hefur Jón haft ómetanleg áhrif á hundruð barna sem hafa verið svo lánsöm að hafa haft hann sem kennara,“ segir í rökstuðningi fyrir verðlaununum.

Sagafilm hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir að fjalla með grípandi hætti um loftslagsbreytingar af manna völdum í sjónvarpsþáttaröðinni Hvað höfum við gert? sem sýnd var á RÚV.