Tímamót

Virkja í sér svikaskáldið

Hópur kvenna sem kallar sig Svikaskáld gefur út ljóðverkið Ég er fagnaðarsöngur og les upp úr því í dag, á kvenréttindadaginn, í Mengi, Óðinsgötu, yfir léttum veitingum.

Svikaskáldin Ragnheiður Harpa, Fríða, Þóra, Melkorka og Sunna Dís. Mynd/Saga Sigurðardóttir

Bókin er eitt ljóðverk, en inniheldur þó ólík ljóð eftir okkur allar fimm,“ segir Ragnheiður Harpa Leifsdóttir um bókina Ég er fagnaðarsöngur sem svokölluð Svikaskáld gefa út í dag, á kvenréttindadaginn. Auk Ragnheiðar Hörpu eru þær Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Sunna Dís Másdóttir og Þóra Hjörleifsdóttir með. „Við kynntumst í ritlist í Háskólanum og áttum sameiginlegt að vera haldnar fullkomnunaráráttu hvað varðar texta.“

Fyrsta bók Svikaskálda kom út fyrir ári og heitir Ég er ekki að rétta upp hönd. Hún rann út. En af hverju er þetta nafn á hópnum? Ragnheiður Harpa svarar því. „Þema fyrstu bókarinnar var svolítið: ég veit ekkert hvað ég er að gera hérna, ég er ekki skáld, hvenær skyldi komast upp um mig? Í fyrra fórum við í sumarbústað og skrifuðum og unnum svo saman að fráganginum. Nú fórum við til Suður-Frakklands í eina viku, skrifuðum hver sín ljóð en hjálpuðumst að við að fínpússa og stilla þau saman þannig að þau mynduðu eina heild. Því þau segja ákveðna sögu.“

Svikaskáldin trúðu því að ritlistarkennarinn þeirra, hann Sigurður Pálsson, væri með þeim við ljóðagerðina í Frakklandi, að sögn Ragnheiðar Hörpu. „Hann Sigurður boðaði svo mikinn fögnuð þegar hann var að fá okkur til að skrifa og á mikið í þessari bók. Svo fengum við Steinunni Sigurðardóttur sem ritstjóra, hún var yndisleg, næm og mögnuð.“

Ragnheiður Harpa segir það ósk Svikaskálda að aðferð þeirra blási öðrum eldi í brjóst og hópar vinni saman að skriftum. „Þó mýtan um skáldið aleitt uppi á rislofti sé lífseig þá mælum við með því að fólk virki í sér svikaskáldið saman og leiki sér með ljóðformið.“

Útgáfunni verður fagnað í Mengi, Óðinsgötu 2, milli klukkan 17 og 19 í dag.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Fyrsta konan útskrifast frá Háskóla Íslands

Tímamót

Hef vonandi náð að gleðja einhverja í gegnum lífið

Tímamót

List í ljósi er okkar barn

Auglýsing

Nýjast

Árás á Downingstræti

Abdúlla verið konungur Jórdaníu í tuttugu ár

Apollo 14 lendir á Tunglinu

Stefán Jóhann Stefánsson verður forsætisráðherra

Þegar Challenger-skutlan fórst yfir Flórídaskaga

Burns kvöld á BrewDog

Auglýsing