Hrefna Smith, eigandi A. Smith þvottahúss í miðbænum, ætlar að selja fyrirtækið sem hefur verið í eigu fjölskyldunnar frá 1946. Hrefna segir engan hafa vont af því að vinna.

Ég er búin að vera með þetta síðan við maðurinn minn keyptum reksturinn af pabba fyrir 30 árum. En ég verð 75 ára á árinu og ætli þetta sé ekki bara komið gott,“ segir Hrefna Smith, eigandi A. Smith þvottahúss í Bergstaðastræti, sem hefur nú ákveðið að selja fyrirtækið sem verið hefur í eigu fjölskyldunnar frá því að pabbi hennar stofnaði það árið 1946.

Áður en Hrefna og Hilmar Heiðdal, eiginmaður hennar, eignuðust þvottahúsið vann hún við hárgreiðslu í 30 ár. Hilmar hóf störf í þvottahúsinu 1969 en hann lést árið 2001 sextugur að aldri. „Ég hef rekið þetta síðan þá og annar sona minna með mér lengst af.“

Hrefna sér enn um bókhald og reikningagerð en hætti að standa við vélarnar og sinna daglegum störfum fyrir um tveimur árum. „Ég var líka alltaf í afgreiðslunni seinni partinn þannig að ég hitti alltaf kúnnana og gat spjallað við þá. Það hefur enginn vont af því að vinna og ég held að þetta hafi haldið mér ungri.“

Hún segist vonast til að réttur kaupandi finnist en á meðan sé reksturinn í traustum höndum sonar hennar og Báru verkstjóra. Það sé góður grundvöllur fyrir rekstrinum þar sem fjöldi hótela og gistiheimila sé í nágrenninu en þessir aðilar eru stór kúnnahópur þvottahússins.

„Það hafa orðið miklar breytingar á síðustu árum vegna ferðamannanna. Nú ertu með veltu allt árið en hér áður fyrr var langmesta veltan á sumrin. Það hefur alltaf verið nóg að gera en áður þurfti ég alltaf að vera með mikið af sumarfólki í vinnu en nú er þetta jafnt allt árið.“

Í þvottahúsið kemur líka stór hópur einstaklinga til að láta þvo sængurföt. „Hingað er að koma þriðja kynslóð sem hefur alist upp við það að sofa með straujuð sængurföt.“

Hrefna segist ekki kvíða því að láta af störfum og segist hafa nóg fyrir stafni. „Ég spila bæði brids og golf. Svo er ég virk í kvenfélaginu Hringnum.“

Árið 1974 keypti Hrefna land rétt fyrir utan borgina þar sem hún er með trjárækt. „Það var mikið hlegið að mér fyrir þetta. Fólk spurði af hverju ég hefði ekki frekar keypt land í Grímsnesi en þetta þýðir að ég hef getað farið þangað eftir vinnu. Ég bý þarna til dæmis alveg á sumrin.“

Eins og áður segir var það pabbi Hrefnu, Adolf Jakob Smith, sem stofnaði þvottahúsið fyrir rúmum 70 árum. „Þetta byrjaði í gömlu timburhúsi en pabbi byggði svo hús við hliðina á því og hefur þvottahúsið verið þar síðan.“

Afi og amma Hrefnu voru innflytjendur en þau fluttu til landsins frá Noregi í kringum aldamótin 1900. Afkomendur þeirra á Íslandi eru meira en 200 talsins en Hrefna segir að öll börn þeirra hafi spjarað sig mjög vel.

„Þau voru eiginlega eina fjölskyldan sem kom hingað til Íslands með börn á þessum tíma þegar aðrir voru að flytja til Ameríku. Ég talaði við þau í Vesturfarasetrinu á Hofsósi og þau höfðu ekki heyrt um aðrar fjölskyldur sem fluttu til landsins á þessum árum,“ segir Hrefna að lokum og kveður því hún vilji nota góða veðrið og drífa sig upp í bústað.