Tímamót

Vinna sem leggst vel í mig

Ragnheiður Skúladóttir, sem var ráðin framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins, er ánægð með alla þætti starfsins, meira að segja samskiptin við Fjársýslu ríkisins.

„Það er ögrandi að fara inn á þetta svið,“ segir Ragnheiður. Fréttablaðið/Stefán

Þetta er lífleg vinna sem leggst vel í mig. Ég hef alltaf viljað starfa þar sem verið er að skapa nýja hluti,“ segir Ragnheiður Skúladóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins. „Bæði nýtist rekstrarkunnátta mín og listræn innsýn í sviðslistum. Ég hef verið meira kringum leiklistina til þessa en það er ögrandi að fara inn á þetta svið.“

Ragnheiður bendir á að dansflokkurinn sé ríkisstofnun, það kalli á mikil samskipti við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Fjársýslu ríkisins. „Það síðarnefnda er nýtt fyrir mér og það kemur mér á óvart hvað mér finnst það skemmtilegt,“ segir hún glaðlega en Ragnheiður hefur síðastliðna mánuði unnið í afleysingum sem framkvæmdastjóri ÍD.

Dansflokkurinn hefur aðstöðu í Borgarleikhúsinu. Ragnheiður er ein á skrifstofunni þegar samtalið fer fram því aðrir starfsmenn eru í Bilbao á Spáni þar sem verið er að sýna Black Marrow eftir Ernu Ómarsdóttur og Damien Jalet. Það verk var frumsýnt hér á landi 2015, nú er 2018 þannig að sýningarnar lifa. „Við setjum upp tvær til þrjár sýningar á ári hér og svo er mikið túrað. Líklega erum við með fleiri áhorfendur erlendis en á Íslandi. Uppsetning er alltaf mikil fjárfesting og með því að fara með hana út fyrir landsteinana tryggir maður enn betur að hún skili sér í innkomu.“

Ragnheiður segir mikilvægt að afla nýrra tengsla erlendis og viðhalda þeim sem fyrir eru. Frægð listdansstjórans Ernu Ómarsdóttur, sem danshöfundar og dansara, hjálpi þar verulega til. Erlendir danshöfundar hafa líka gert íslenska flokknum gott, að mati Ragnheiðar. „Okkar lögbundna hlutverk er að hlúa að innlendri danssmíði og dansmenningu en til að hún megi blómstra er gott að fá utanaðkomandi áhrif við og við,“ segir hún og upplýsir að vorsýning flokksins verði undir stjórn hins slóvenska Anton Lachky. „Hann er áhorfendum okkar ekki alls ókunnur, setti upp sýninguna Fullkominn dagur til drauma hér árið 2011.“ 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Tíðar­andinn nær jafn­vel í gegn í kirkju­görðunum

Tímamót

Aðgengi fyrir allt árið hlaut umhverfisverðlaun

Tímamót

Við verðum í jólaskapi

Auglýsing

Nýjast

Garðurinn standsettur á undan baðherberginu

Skemmtistaðurinn Glaumbær brann

Heiðruðu fjölþjóðlegan hóp nýdoktora frá HÍ

Menningarteiti Teits haldið þriðja árið í röð

Drifinn áfram á kraftinum

Í dag verður reynt að lenda geimfarinu InSight á Mars

Auglýsing