Ég ákvað að velja villt dýr sem tilheyra norðurslóðum, ísbjörn, örn, ref og hval. Þau þekkjast líklega meira á hreyfingum en formum,“ segir Hrund Atladóttir listakona sem sýnir ljósaverk á framhlið Hörpunnar á morgun, föstudag, í tilefni af loftslagsverkfallsvikunni. „Hvalurinn er táknmynd hafsins, örninn loftsins, björninn íssins og refurinn landsins og flest þeirra erum við enn að skjóta,“ segir Hrund. Hún kveðst lengi hafa haft áhuga á náttúruvernd og vera í hópi sem heiti List fyrir loftslagið. „Ég hringdi sjálf í ráðafólk Hörpunnar til að fá leyfi fyrir sýningunni, það er enginn að borga mér fyrir þetta.“

Síðasta verk Hrundar í ætt við þetta var ljósaverk á Kópavogskirkju á safnanótt. Kirkjan virtist mosavaxin og með fossi á framhliðinni. Spurð út í ferilinn kveðst hún fást mest við vídeó- og hreyfilist. „Ég lærði í Amsterdam, lokaverkefnið var stórt vídeóverk sem var hægt að labba í kringum. Svo vann ég á hönnunarstofu í New York og sótti um að sýna í fínu galleríi á Manhattan. Einnig gerði ég innsetningu í East Willage, í risastóru gallerí, sem ég fann af tilviljun. Maður þarf auðvitað að hafa augun opin fyrir tækifærum, ég er ekki sú besta í að pota mér áfram og er með heilt stúdíó af ósýndum verkum.“

Nú er Hrund að vinna að fyrstu teiknibíómyndinni sinni í fullri lengd. Hún gerist á hálendinu og er með náttúruverndarívafi. „Myndin gerist í hulduvíddinni, þar eru þekktar þjóðsagnaverur að plotta og nokkrar nýjar úr mínum hugarheimi. Vinnsluheitið er Skoffín því aðalkarakterinn er afkvæmi kattar og refs.“

Hrund getur þess að gæðastund verði á Sky bar, Centerhóteli við Skúlagötuna, annað kvöld, með fullkomið útsýni yfir Hörpuna.