Við höldum ekki sérstaklega upp á sjálfan afmælisdaginn sem er í dag, nema náttúrlega mæta spariklædd til vinnu okkar,“ segir Gunnlaug Thorlacius, formaður hins sjötíu ára Geðverndarfélags Íslands, glaðlega.

Stjórn Geðverndar er skipuð fagfólki sem allt er í sjálfboðavinnu fyrir félagið, að sögn Gunnlaugar. Sjálf er hún þroskaþjálfi og félagsráðgjafi og starfar á Landspítalanum. „Fyrir ári síðan mótuðum við okkur forvarnarstefnu í Geðverndarfélaginu, höfum verið að þýða fræðsluefni og halda námskeið um Solihull-aðferðina sem snýst um snemmtækar forvarnir. Við förum á fundi með félagsþjónustu og bæjarstjórnum því planið er að vekja nýja hugsun í þjónustu við fjölskyldur.

Við viljum meina að fyrsti 1001 dagurinn í tilveru barns, sem sagt í móðurkviði og fyrstu tvö árin eftir fæðingu, séu langmikilvægasti tíminn í lífi þess. Ef aðbúnaðurinn er slæmur, vanræksla eða líkamlegt og andlegt ofbeldi, geti hann haft alvarlegar afleiðingar seinna á lífsleiðinni. Þetta hefur verið sýnt fram á með viðurkenndum rannsóknum.“

Gunnlaug segir vissulega allar forvarnir góðar en þær einföldustu, ódýrustu og bestu séu að styðja á kerfisbundinn hátt við barnafjölskyldur sem eigi í vanda vegna geðrænna kvilla eða vímuefnaneyslu.

Geðverndarfélagið var stofnað í þágu fólks með geðraskanir, af fagfólki og aðstandendum og Gunnlaug segir það alltaf hafa verið í takt við tíðarandann. „Auðvitað breytist tíðarandinn í tímans rás, viðhorf til geðsjúkra, lækningaraðferðir og allur aðbúnaður. En stefna félagsins hefur alltaf verið framsýn.

Í upphafi var Helgi Tómasson geðlæknir formaður og lagði áherslu á að koma geðsjúklingum í endurhæfingu og út í samfélagið, í stað þess að hafa alla á stofnunum. Félagið einbeitti sér að rekstri á endurhæfingarbúsetu og vernduðum heimilum, átti til dæmis hlut í Reykjalundi, og á enn, til að tryggja geðpláss þar. Lagði til tvær húseignir þar og hluta í viðbyggingu. En þörfin breyttist, sveitarfélögin tóku að mörgu leyti yfir búsetuúrræði fatlaðra, samkvæmt lögum, og á Reykjalundi er fullkomlega viðurkennt að þar sé geðræn endurhæfing. Félagii breytti því kúrsinum og einbeitir sér nú meira að forvörnum, án þess að við séum að sniðganga aðra þætti málaflokksins.“