Lengi velti ég fyrir mér, fram og til baka, hvort ég ætti að halda áfram að gefa út dagatöl. En þegar eftirspurnin byrjaði um mitt sumar ákvað ég að láta vaða,“ segir Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi og höfundur ljósmyndadagatals, sem hún gefur nú út í þriðja sinn með myndum af marglitum búpeningnum. Hún kveðst leggja mikla áherslu á mislitt fé, ekki síst mórautt. „Þetta er, svo að segja, markviss litaræktun hjá mér. Ég nota helst hrúta sem gefa alla liti í staðinn fyrir að sverta allt,“ útskýrir hún.

Karólína býr í fjöllum á mótum Húnavatnssýslu og Skagafjarðar og þar er allt hvítt af snjó þegar ég heyri í henni. Jörðin hennar, Hvammshlíð, var í eyði frá árinu 1888, þar til hún flutti á staðinn með bústofn sinn fyrir rúmlega fimm árum. Bæjarstæðið er í 310 m hæð og í venjulegu ári segir hún einungis júlí og ágúst alveg snjólausa.

Fyrir ágóðann af útgáfu fyrsta dagatalsins, 2018, tókst Karólínu að kaupa notaða Zetor-dráttarvél og með 2019- almanakinu fjármagnaði hún vetrarslóð fyrir vélina frá þjóðveginum og heim til sín. Hún kveðst himinlifandi yfir að þetta skyldi vera hægt. Hún sé ekki með sérstakt söfnunarátak nú, en verð dagatalsins sé óbreytt og til að spara sem flestum burðargjald, séu vissir afhendingarstaðir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Austurlandi.

Frelsi og náttúrufegurð speglast í myndum dagatalsins sem og persónuleiki fyrirsætanna sem eru langflestar nafngreindar. Karólína segir eitt af markmiðum hennar með útgáfunni vera að miðla sveitahamingju og gleðja bæði börn og fullorðna.

Athyglisvert er hversu mórauðar fyrirsætur fá mikið rými á dagatalinu í ár.