Á neðri hæð í húsi Aflvéla við Suðurhraun í Garðabæ er Burstagerðin. Þar er ríki Kjartans Gunnarssonar, eina menntaða burstagerðarmanns landsins. Þegar mig ber að garði stendur hann við mottugerð, nákvæmnisverk sem unnið er bæði með vélum og höndum. „Svona mottur eru víða, þessi á að fara í Bráðamóttökuna,“ útskýrir Kjartan sem sinnir sínu fagi þó aldurstalan hækki, enda eins og unglamb. „Ég get ekki hugsað mér að vera aðgerðarlaus og þó að það sé skemmtilegt og nauðsynlegt að passa barnabarnabörnin stundum þá langar mig líka að gera eitthvað annað,“ segir hann brosandi.

Kjartan ólst upp í Svínafelli í Öræfum og man eftir handbundnum böggum og hestasláttuvélum. en svo brast vélaöldin á. „Ég var enginn sérstakur vélamaður,“ segir hann. „Mér þótti auðvitað gaman að keyra svona um það bil eins hratt og druslurnar drógu en hafði líka gaman af skepnunum og einn vetur hugsaði ég alveg um þær, þegar ég var 15-16 ára. Bræður mínir voru þá í Eyjum og þangað fór ég svo árið eftir, einmitt á 17 ára afmælisdaginn minn. Var tvær vetrarvertíðir í landi og þá þriðju á sjó, á Hilmi VE. Það var 40 tonna bátur, hann var oft vel hlaðinn og með þeim aflahærri um vorið.“

Kjartan og forstjórinn Friðrik Ingi, eigandi Burstagerðarinnar sem var stofnsett 1. maí árið 1930. fréttablaðið/anton brink

Sextíu og eitt ár eru frá því Kjartan hóf störf í Burstagerðinni fyrst, hjá Hróbjarti Árnasyni, afa Friðriks Inga Friðrikssonar sem nú rekur hana. „Árið var 1959 og ég var rétt innan við tvítugt,“ rifjar Kjartan upp og kveðst hafa unnið við penslagerð fyrstu árin. „En ég hef ekki verið hér samfellt heldur vann í átta ár annars staðar,“ tekur hann fram. „Þó var ég viðloðandi Burstagerðina líka flest árin.“ Hann segir breytingarnar miklar frá því hann byrjaði. „Þá voru hér tíu, tólf manns í vinnu og framleiðslan var fjölbreytt, enda voru Íslendingar þá sjálfum sér nógir með alls konar iðnaðarvörur sem nú eru fluttar inn, þar á meðal pensla og bursta. Við erum með þrjár, fjórar gerðir af fjöldaframleiddum burstum núna, þar á meðal bílaþvottakústa fyrir olíufélögin, þessa sem eru á þvottastöðvunum. Ég er að byggja upp lager af þeim fyrir sumarið,“ segir Kjartan og bendir á stóra kassastæðu sem hann segir fulla af hárum í kústana. Hann setur líka vélina í gang og býr til nokkra bursta svo ég sjái hvernig að því er staðið. „Svo eru ýmis sérverkefni, aðallega fyrir álver og fiskiðnað,“ bætir hann við, þegar hann hefur slökkt á vélinni. „Við endurnýjum hár í bursta fyrir álverin og búum til stóra, sívala bursta fyrir togarana, þeir snúast móti færiböndunum og hreinsa af þeim ísinn.“

Þó Kjartan segi alltaf „við“ þá hefur hann verið einn við framleiðsluna í Burstagerðinni í nokkur ár. Leiðist þó aldrei í vinnunni, að eigin sögn. Hann hlustar á útvarpið og leiðir hátalarana í eyrun þegar hátt lætur í vélunum. Stutt er líka í góðan félagsskap starfsfólks Aflvéla og stjórnandans, Friðriks Inga, upp á loftinu, þangað stekkur Kjartan í mat og kaffi. Þegar hann varð áttræður, 17. janúar síðastliðinn, bauð Friðrik Ingi honum og öðru starfsliði sínu og mökum í árshátíðarferð til Lettlands. Kjartan segir það hafa verið mikið stuð. En aðspurður segir hann langt síðan hann hafi farið á ball. „Við hjónin dönsum samt stundum í eldhúsinu. Nýlega buðum við fjölskyldunni í mat, svo komu óvæntir gestir úr Kjalnesingakórnum og sungu nokkur lög og við fengum okkur snúning!“

Burstagerðin var við Laugaveg 93 þegar Kjartan byrjaði þar. „Við höfum flutt þó nokkuð oft,“ segir hann. En erum búin að vera hér í Suðurhrauni í nokkur ár. Ég enda á „hrauninu!“