Við Svanhildur Hólm hittumst hjá sameiginlegri vinkonu um helgina, hún kallaði þetta málþingið með „ekki“ dramatíska nafninu – og flissaði. Ég vona samt að hún mæti,“ segir Auður Jónsdóttir rithöfundur glaðlega. Þar á hún við ráðstefnuna Fjölmiðlar á bjargbrún nýrra tíma sem verður í Þjóðminjasafninu 2. nóvember og hefst klukkan 13. Auður, Bára Huld Beck og Steinunn Stefánsdóttir, sem skrifuðu saman bókina Þjáningarfrelsið, standa að henni í samstarfi við Félagsfræðingafélagið, Forlagið, Kjarnann, félagsfræðina í HÍ og Blaðamannafélagið.

Nú heldur Auður áfram að lýsa helgarheimsókninni. „Við sátum þarna nokkur. Þetta er frekar hægrisinnað fólk sem við vorum hjá og ég þekki frá gamalli tíð, Brynhildur Einarsdóttir og Illugi Gunnarsson. Við fórum smá á flug að ræða fjölmiðlaumhverfið, vorum ekki sammála um margt en þó um eitthvað og því lengra sem leið á þetta eldhússpjall, lentum við oftar í því að það var ekkert svar við vangaveltum okkar. Þá gat ég flissað: „Þarna sjáið’i, þetta er á bjargbrún nýrra tíma.“ Það varð eiginlega lýsandi fyrir niðurstöðuna svo ástandið er kannski bara dramatískt.“

Auður nefnir rekstrarforsendur, tæknibreytingar og upplýsingamengun meðal áhugaverðra umræðuefna á þinginu, einnig þöggun og kælingu. „Það eru þessi áhrif sem reynt er að hafa á fjölmiðla með því að beita málshótunum og málssókn, slíkt er algengt. Jafnvel þó fólk viti að það sé með tapað mál þá getur það reynt að þreyta fjölmiðilinn, ef það hefur auðinn í hendi sér. Svo er þrýstingi líka beitt með því að hætta að kaupa auglýsingar í viðkomandi miðli eða neita að dreifa honum eða selja hann, ef menn hafa aðstöðu til þess. Það eru margs konar kælingaráhrif og líka margt sem er ósýnilegt, svo sem eigendaafskipti, hvað er fjallað um, hverju er sleppt og í hvaða samhengi eru hlutirnir settir. Við Steinunn og Bára fengum ýmsar erfiðar sögur þegar við vorum að skrifa bókina, bæði frá viðmælendum og öðrum sem höfðu samband í framhaldi af lestri hennar.“

Auður nefnir að viss gerjun sé í gangi í sambandi við fjölmiðla. „Það er til dæmis tillaga frá menntamálaráðherra um stuðning við fjölmiðla og breytingar á rekstri þeirra og einnig er nefnd að vinna með tjáningarfrelsið. Tækniumhverfið hefur mikil áhrif og lækin og klikkin á efnið, hraðvinnslan sem þarf að vera á ritstjórnum og breyttar auglýsingaforsendur.“

Að sögn Auðar var hún um margt ósammála hægrisinnaða fólkinu við eldhúsborðið. Það er þó lýsandi að við vorum þó sammála um að hægt væri að ræða þessi mál opið, án þess að fara í pólitískar eða sérhagsmunalegar deilur. Þess vegna fáum við marga að borðinu á málþinginu, fólk úr fræðasamfélaginu, af fjölmiðlum og auglýsingastofunum, við viljum fá spennandi umræður.“ Hún kveðst hafa verið mönuð í að setja þingið, en þær Steinunn og Bára Huld ætli að grípa boltana og búa til niðurstöður í lokin. „Þá lýsi ég mig bara óábyrga og hlusta. En ég vona að það komi eitthvað frjótt og skemmtilegt út úr þinginu. Umræðan um fjölmiðla þarf að vera lifandi. Við notum þá daglega til að greina samfélagið.“

Með innlegg á málþinginu eru:

Óðinn Jónsson, Elfa Ýr Gísladóttir, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Bergur Ebbi, Valgerður Jóhannsdóttir, Þórður Snær Júlíusson, Hjálmar Gíslason og Lilja Alfreðsdóttir. Ásamt þeim taka Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þorbjörn Broddason, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Birgir Guðmundsson, Smári McCarthy og Björgvin Guðmundsson þátt í pallborðum.

Umræðustjórar verða Þórunn Elísabet Bogadóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir. Ráðstefnustjóri er Sigrún Ólafsdóttir.