Nýtt gallerí, Galleríið, var nýlega opnað á Skólavörðustíg 20, en þar sýna og selja sextán myndlistarmenn verk sín. Blaðamaður mælti sér mót við tvo þeirra, Gunnellu Ólafsdóttur og Laufeyju Jensdóttur.

„Við höfum langflest unnið að myndlistinni í mörg ár og því eru hér þaulreyndir myndlistarmenn,“ segir Gunnella. Nokkur gallerí eru á Skólavörðustíg en Gunnella segir hópinn ekki hræðast samkeppnina. „Við erum nýjasta galleríið og teljum okkur vera að styrkja flóruna. Nú er Skólavörðustígurinn orðinn listagallerísgatan í Reykjavík.“

„Við ætlum að byggja okkar sérstöðu á því að bjóða fyrst og fremst áhugaverða myndlist,“ segir Laufey. „Þegar við hófum þetta ævintýri okkar ákváðum við að vanda vel val þeirra listamanna sem yrðu með verk sín í galleríinu. Hér má finna verk eftir myndlistarmenn sem hafa starfað lengi að listsköpun sinni sem og verk áhugaverðra myndlistarmanna sem hafa vakið mikla eftirtekt þrátt fyrir skamman listferil og því náð langt á sínu sviði. Það er mjög ánægjulegt að heyra að fólk sem kemur hingað inn talar um það hvað þetta sé vandað og áhugavert gallerí.“

Ævintýraleg verk

Í hópi listamannanna er Kristjana S. Williams sem býr í London og rekur þar stúdíó sitt. „Hún er menntaður grafískur hönnuður og hefur vakið mikla athygli og fengið einstaklega áhugaverð tækifæri víða um heim vegna sérstöðu verka sinna. Verk hennar eru til dæmis seld í Harrods, Liberty og Victoria and Albert Museum. Þá hefur hún unnið fyrir Louboutin, Coldplay, The Shard London og Ólympíuleikana í Ríó. Verk hennar eru bæði litrík og ævintýralega og hafa fangað athygli almennings sem og þekktra hönnuða sem hafa leitast við að fá hana í samstarf að undanförnu.

Hér má sjá verk eftir Kristjönu S. Williams en verk hennar hafa vakið athygli víða um heim.

Við höfum sannarlega fundið að verk hennar vekja mikla athygli hér í Galleríinu sem og erlendis,“ segir Gunnella.

Í hópnum eru systurnar, Sigrún og Ólöf Einarsdætur. „Sigrún er einstakur glerlistamaður og hafa umfjallanir um verk hennar birst í erlendum fagtímaritum. Systir hennar Ólöf er einnig áhugaverður textíllistamaður og þekkt víða erlendis,“ segir Laufey. „Þær hafa einnig unnið verk saman og þá vinnur Sigrún með glerið og Ólöf með textílinn og úr þeirri samvinnu skapast einstakir skúlptúrar.“

Enn einn listamanna Gallerísins er Jón Baldur Hlíðberg en frummyndir hans úr verðlaunabókinni Flóru Íslands eru þar til sölu ásamt fleiri verkum hans.

Svona koma myndirnar

Gunnella hefur lengi verið starfandi í myndlistinni og alþekktar eru glaðlegar fígúrur hennar i íslensku landslagi. Hún er spurð hvort hún hafi tekið eftir því að fólk kemst beinlínis í gott skap við að horfa á myndir hennar. „Ég heyri það oft frá fólki og sé þegar það skoðar myndirnar að það brosir út að eyrum. Það er enginn fyrirfram ákveðinn ásetningur hjá mér að mála svona en svona koma myndirnar til mín,“ segir hún.

„Ég vinn í marga listmiðla,“ segir Laufey. „Þegar ég fæ hugmynd leita ég að efni sem hæfir henni. Ég hef unnið verk mín í leir, með olíu og akrýl, nýtt mér möguleikann á blandaðri tækni og finnst innsetningar heillandi listform. Ég einbeiti mér að því að láta hugsjón og efnisval haldast í hendur í mínum verkum.“