Þuríður Sigurðardóttir og Guðni Ágústsson hittast uppi á Laugarneshólnum þar sem æskuheimili Þuríðar stóð. „Hér fæddist ég,“ segir hún brosandi og færir sig í eitt hornið á auðum bletti í kerfilbreiðunni. „Pabbi tók á móti mér, ljósan var eitthvað sein. Húsið var 52 fermetrar að grunnfleti og við vorum sex systkinin.“ „Sex? Það er nú ekki neitt, við vorum sextán. Mamma skildi sjálf á milli þegar ég fæddist, amma var ekki komin,“ toppar Guðni.

Spóinn flögrar um vellandi og sest í móann skammt frá. Það er ekki víða sem Reykvíkingar heyra og sjá til hans innan borgarmarkanna. „Við verðum að standa vörð um umhverfið hér og megum ekki taka það af börnum framtíðarinnar að hafa aðgang að óspilltri fjöru, móa með fuglalífi, menningarminjum og einstöku útsýni til Viðeyjar. Í verndaráætlun er útsýnið þangað metið sem mikil verðmæti, enda hafi það lítið breyst í aldir. En nú eru komnar gríðarlegar landfyllingar rétt við tangann og ef þar koma byggingar, eins og til stendur, er útsýninu illilega spillt,“ segir Þuríður. „Það eru sterk söguleg tengsl milli Laugarness og Viðeyjar, sem hafa verið samofin heild gegnum tíðina og það er verið að rjúfa þá heild.“

„Þarna er mikið umhverfisslys. Þessi landfylling nær langleiðina út í Skarfasker,“ tekur Guðni undir. „Laugarnesið er yndislegasti staðurinn í Reykjavík. Ég geng hér oft tvo, þrjá hringi og sest í fjöruna og hlusta á öldugjálfrið. Svo skrifaði ég sögu Hallgerðar langbrókar, þá sá ég hana oft sitja hér á hólnum. Sá hárið blakta undan vindinum.“

Þetta hendir Þuríður á lofti. „Viðurnefni hennar, langbrók, þýðir einmitt sítt hár en ekki síðar buxur,“ upplýsir hún. „Orðið langbrok er komið úr norsku og þýðir gróðurvin, hið mikla hár Hallgerðar var vísun í þá merkingu.“

Hér var hún

„Aðdáendur Hallgerðar og allir sem vilja kenna sig við kvenfrelsi, ættu að standa að því að henni verði reist stytta hér í Laugarnesinu. Hér var hún, hér dó hún og Njála segir að hún hafi verið lögð hér til hvílu í kirkjugarði. Þú værir ágæt fyrirmynd að þeirri styttu, Þuríður,“ segir Guðni og er nú kominn á flug.

„Hallgerður var falleg kona. Hún var göfugrar ættar og ekki lamb að leika við, en ég held að hún hafi verið í mannréttindabaráttu allt lífið. Augu okkar nútímafólks hafa opnast fyrir örlögum þessarar stórbrotnu, umdeildu konu. Hún var sem barn misnotuð af Þjóstólfi, hún var þvinguð í hjónaband við Þorvald á Felli, fjórtán ára að aldri. Eftir að Þjóstólfur drap hann, giftist hún Glúmi og elskaði hann, en hann rak henni kinnhest úti á hlaði og Þjóstólfur kom að henni grátandi, svo hann drap Glúm líka og hún var orðin ekkja í annað sinn. Saga hennar og Gunnars á Hlíðarenda var ástarsaga, en þar bættist við einn harmleikurinn sem þekktur er úr nútímanum. Hún var lögð í einelti. Njáll og Bergþóra þoldu hana ekki og töldu hana ekki samboðna Gunnari. Allir vita hvernig fór, hann sló hana í veislu þegar gestir voru viðstaddir og hún lýsti því strax að þess myndi hún hefna. Varð svo einhver hataðasta kona Íslandssögunnar, af því hún átti að hafa valdið dauða Gunnars með því að ljá honum ekki leppa tvo í bogastreng sinn.“

Guðni bætir því við að eftir víg Gunnars hafi Hallgerður flutt í Laugarnesið á eignarjörð sem hún erfði eftir Glúm. „Hún hafði átt hendur að verja fyrir öllum mönnum sínum og hér er því fyrsta kvennaathvarfið. Gamlir Reykvíkingar sögðu að leiði hennar hefði alltaf verið þekkt, það hefði verið grænt allt árið. Þeir sögðu mér líka að þegar Sæbrautin var lögð hafi verkfræðingurinn sagt: „Við verðum að fara yfir hornið á kirkjugarðinum, það gerir nú ekki mikið til, leiðið hennar Hallgerðar fer undir. Það er í lagi að keyra yfir kerlinguna, næstu þúsund árin.“ Þess vegna hoppa bílar hér aðeins, þeir fara yfir leiðið hennar.“

Gaf dætrum landsins slagorð

Njála er ein merkilegasta og fallegasta bók landsins, að mati Guðna. „Hallgerður er stórbrotin persóna – elskuð og hötuð. Saga hennar kallar til okkar gegnum aldirnar sem birtist í því að hún var kvenréttindakona, lengi misskilin, en nútíminn skilur hana því í lífi sínu braut hún feðraveldið á bak aftur,“ bendir hann á. „Hallgerður gaf líka öllum dætrum þessa lands slagorð sem ætti að standa á styttunni. „Engin hornkerling vil ég vera.“ Það er kall aldanna til kvenna.“

„Já, ég hefði viljað setjast niður með Hallgerði langbrók, drekka með hanni kaffibolla og heyra sögu hennar frá hennar hlið,“ segir Þuríður.