„Hér eiga yfir þrjátíu myndlistarmenn verk og allir eiga það sameiginlegt að vera virkir í senunni bæði hér heima og erlendis,“ segir Helga Björg Kjerúlf þegar hún gengur um hið nýja sýningarrými Listval á Hólmaslóð 6, sem hún og Elísabet Alma Svendsen opna með sölusýningu á morgun klukkan 16.

Að sögn Helgu Bjargar er markmiðið með framtakinu að gera myndlistina aðgengilega almenningi. Elísabet Alma tekur undir það.

„Fólk er stundum feimið við að hafa beint samband við listamenn á þeirra vinnustofum og fá að skoða verkin en hér getur það gengið um, spáð og spekúlerað og gert samanburð.“ Hún segir marga vilja fjárfesta í myndlist og auðvitað prýða með henni híbýli sín og vinnustaði en stundum sé fólk í vafa um hvað henti hverju sinni.

Elísabet Alma hefur undanfarna mánuði skipulagt myndlistarsýningar í versluninni Norr11 á Hverfisgötu í samstarfi við listamenn auk þess að veita einstaklingum og fyrirtækjum ráðgjöf.

„Næsta skref var að safna saman verkum eftir marga myndlistarmenn og opna svona sýningarpláss,“ lýsir hún.

Þær Helga Björg og Elísabet Alma segja mikla grósku í myndlistinni eftir Covid-tímabilið, enda lítið búið að vera um sýningarhald en meira um næði til að skapa.

„Við finnum strax fyrir miklum meðbyr í sambandi við það sem við erum að gera hér á Hólmaslóðinni,“ segir Helga Björg bjartsýn.

„Við erum – og verðum – með fjölbreytta blöndu af verkum, bæði tvívíðum og þrívíðum. Í sumar verður opið á fimmtudögum og föstudögum í Listvali en með haustinu lengist afgreiðslutíminn.“