Elsku afi. Það er svo skrítið að hugsa til þess að þú sért farinn. En þú ert kominn á betri stað og burt frá þessum veika líkama.

Mikið hef ég og krakkarnir mínir verið heppin að hafa þig í lífi okkar svona lengi og við erum afar þakklát fyrir það. 

Ég bjó frá fæðingu og til tveggja ára aldurs heima hjá ykkur ömmu á Hjallaveginum og frá því ég man eftir mér hafið þið amma verið stór hluti af mínu lífi. Ég var heppin með hvað þér þótti skemmtilegt að hafa mig með þér, alltaf eins og skuggi þinn fyrstu árin mín.

Það var svo margt sem við gerðum saman og margt sem þú kenndir mér. Ferðirnar niður á tjörn til að gefa öndunum brauð með þér og Tedda og kaffi á laugardögum á Hótel Loftleiðum í svo mörg ár. Og auðvitað var ég aðal myndefnið því þú varst alltaf með myndavélina og kvikmyndatökuvélina við hendina.

Aðal áhugamálið var ljósmyndum og að lesa. Svarta leðurtaskan sem þú geymdir myndavélina í og filmurnar munu seint fara úr minni mér. Svo flottur með hana í svarta leðurjakkanum á svarta Bensinum að hlusta á Roger Whittager og með flottu krullurnar. Vildi að ég hefði erft hárið þitt.

Eftir að ég byrjaði í Langholtsskóla fór ég alltaf upp í Alís eftir skóla. Bæði þegar þið voruð á Langholtsveginum og eftir að þið fóruð í Vatnagarða. Það fannst mér ekki leiðinlegt. Fékk að hjálpa við að kemba ullina, setja í þurrkarann og vinduna og enn í dag ef ég finn lyktina af blautri ull fer ég aftur í barnæskuna og á saumastofuna. Ég fékk að pakka niður í kassa áður en peysurnar voru sendar erlendis og svo svaf ég í efnisrekkunum ef ég var þreytt.

Þetta voru góðir tímar og þar lærði ég svo margt sem ég bý að í dag. Að sauma eins og amma og vera vinnusöm. Margar flíkur voru saumaðar á dúkkurnar og á mig sjálfa sem hengu kannski saman eitt skólaball. Þú áttir alltaf Andrésar blöð á dönsku svo lengi vel hélt ég að Andrés Önd væri danskur. Við skoðuðum oft teiknimyndasögur um Indíána og kúreka og horfðum á myndir með John Wayne. Ég hélt alltaf með indíánunum og það er kannski þess vegna að það er svona mikill indíáni  í mér og ég með þrjú indíánahúðflúr. Það mun bætast við eitt í viðbót fyrir þig elsku afi. 

Eftir að ég varð eldri þá var ég samt alltaf að fara til þín og ömmu í Heimatúnið. Fannst alltaf gott að vera í kringum ykkur og fá að glamra á píanóið í stofunni sem unglingur. Svo áttum við líka svo yndislega hefð að fara alltaf sama hvernig sem á stóð í kikjugarðana og sendast út með gjafir á aðfangadag. Held ég hafi verið tveggja ára þegar þú byrjaðir að taka mig með þér og vildi alls ekki breyta þeirri hefð okkar þó ég væri fullorðin. Allt gert til að geta farið í okkar árlegu ferð með malt og smákökur í bílnum í kirkjugarðana með kerti. Seinna bættust fleiri með og Júlía mín fór að fara með okkur.

Síðasta minning okkar þaðan er fyrir tveimur árum þegar þú varst orðin ansi slappur líkamlega og í þrjóskukasti dró ég þig með mér í gegnum snjóskaflana í gamla garðinum við Suðurgötuna. Ég vissi þá að það yrði okkar síðasta ferð saman í kirkjugarðinn. Líkaminn var orðinn svo slappur. Við krakkarnir mínir munum halda þessum sið áfram og heimsækja þig ásamt hinum ástvinum sem eru farnir.

Það var erfitt að sjá þig veikjast og sjá líkama og hug gefa sig en þú barðist og varst ekki tilbúinn að fara fyrr en núna.

Og mikið er ég glöð að ég kom að heimsækja þig í mars þegar ég var í stuttu stoppi á Íslandi. Þann daginn var heilsan góð, þú sast á kaffistofunni þegar ég kom og brostir út að eyrum þegar ég kom inn. Mundir greinilega eftir mér, það var ekki þannig alla daga að þú mundir eftir fólkinu þínu. Við áttum gott spjall og þú varst glaður þennan dag. Það er gott að eiga minningu frá þessum degi sem er síðasta skiptið sem ég sá þig. En þú verður alltaf í hjarta mér þangað til við hittumst í næsta lífi.

Elska þig elsku afi og takk fyrir leiðsögnina og ástina sem þú gafst mér og krökkunum.

Alda Björg Guðjónsdóttir og börn