Konan sér um afmælisdaginn og ég veit ekkert hverju hún ætlar að finna upp á. Við héldum stórar veislur þegar ég varð fimmtugur og sextugur og á öðrum afmælum hafa börn og barnabörn verið með okkur líka. Nú vildum við bara vera tvö saman,“ segir Theódór Júlíusson leikari, oft kallaður Teddi, sem er sjötugur í dag. Hann er í 26 stiga hita í Berlín með eiginkonunni, Guðrúnu Stefánsdóttur, sem var miðasölustjóri Borgarleikhússins þar til fyrir skömmu.

Spurður hvort leiðir þeirra hafi legið fyrst saman í leikhúsinu svarar hann: „Nei, við erum skólafélagar frá Siglufirði og vorum 19 ára þegar við giftum okkur. Þá áttu karlmenn að vera orðnir 21 árs og konur 18 til að mega ganga í hjónaband svo ég þurfti undanþágu.“

Teddi kveðst hafa orðið sviðsvanur á Siglufirði, enda faðir hans prímusmótor í leikfélaginu, en byrjað á að læra bakaraiðn og það hafi verið á Ísafirði sem hann byrjaði fyrir alvöru að leika, er hann starfaði þar í Gamla bakaríinu. „Svo tók ég við bakaríinu á Siglufirði og við fluttum þangað aftur og síðar til Dalvíkur. Þá kynntist ég Leikfélagi Akureyrar og árið 1978 var mér boðinn fastur samningur þar. Upp úr því fór ég í leiklistarnám í London en Guðrún varð eftir á Akureyri með dæturnar fjórar. Við bjuggum á Akureyri í ellefu ár. Oft komu góðir leikstjórar þangað, mig langar að nefna Bríeti Héðinsdóttur, ég lék Búa Árland í Atómstöðinni undir hennar stjórn og það var einn mesti skóli sem ég hef komist í.“

Af eftirminnilegum hlutverkum nefnir Teddi Sölva Helgason í Ég er gull og gersemi, í leikgerð og stjórn Sveins Einarssonar, segir það alltaf hafa setið í sér. „Líka hlutverk Tevje mjólkurpósts sem Stefán Baldursson valdi mig í þegar hann kom norður að setja upp Fiðlarann á þakinu. Svo var ég gestaleikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1988 og þegar Borgarleikhúsið var opnað ári síðar var mér boðinn samningur þar og Guðrún ráðin í miðasöluna. Það voru tímahvörf og í hönd fóru skemmtileg þrjátíu ár hjá Leikfélagi Reykjavíkur.“

Þátttaka í á þriðja tug kvikmynda í fullri lengd er á ferilskrá Tedda og fyrri ferðir hans til Berlínar hafa flestar verið í tengslum við kvikmyndahátíðir en ein var vorferð með leikhúsfólki. Nú er hann þar í einkaerindum.