Björn Ágúst Magnússon sendi mynd af íslenskum hestum til National Geographic í Bandaríkjunum og fékk orðsendingu um að hún hefði hitt ritstjórann David Y. Lee í hjartastað, hann hefði sett hana í flokk uppáhaldsmynda. „Það er vissulega heiður fyrir mig að ritstjóri í þessu virta útgáfufyrirtæki kunni svona vel að meta það sem ég er að gera,“ segir Björn Ágúst.

Að hans sögn hefur ljósmyndun verið yndi hans og ánægja síðustu 23 árin, eða allt frá því að hann fékk fyrstu myndavélina í jólagjöf árið 1997. „Þá byrjaði ballið,“ segir hann glettinn og bætir við: „Ég gæti kannski lifað á ljósmyndun en ég hef líka mjög gaman af að matreiða og ákvað samt að verða ekki matreiðslumaður því þá mundi ég líklega missa ánægjuna sem ég hef af því að elda og fengi heldur ekki að njóta matarins sjálfur.“

Hestamyndina tók Björn Ágúst uppi í Hvalfjarðarsveit. „Ég er sveitastrákur, alinn upp á Eystri-Leirárgörðum og á Vestri-Leirárgörðum er hrossaræktarbú. Það er stutt á milli bæjanna og þar býr gott fólk. Ég þurfti að stoppa til að opna hlið, sá hestana og skýjafarið og tók þessa mynd. Fremst er Vár og myndin heitir það.“

Björn Ágúst kveðst eiga fullt af myndum víða að. „Ég hef ferðast mikið. Var til dæmis í Afríku í nóvember í fyrra og hef farið ótal sinnum til Danmerkur. Mamma býr þar og ég er mömmustrákur! Hún skellti sér í nám þegar hún var á svipuðum aldri og ég er núna og hefur starfað á bráðamóttöku í tuttugu ár. Á COVID-tímum get ég ekki heimsótt hana en við tölum saman í oft í viku.“

Nú er Björn Ágúst að koma sér upp eigin ljósmyndasíðu. „Ég heiti Björn eftir afa og Ágúst eftir langafa og það styttist í að síðan bjornagust.is fari í loftið. Ég hef lítið komið mér á framfæri en á National Geographic er netsamfélag og þar er gott að fá endurgjöf á myndirnar. Það er margt sem fylgir myndatökum því með þeim skynjar maður heiminn á nýjan hátt. Mér finnst gaman að segja sögur og það vil ég að mínar myndir geri. Ég hef þroskast og þróast og myndirnar með.“

Björn segir styttast í að myndasíðan bjornagust.is fari í loftið. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari