Vikublaðið Íslendingur byrjaði að koma út á Akureyri, þennan mánaðardag árið 1915. Stofnandi þess var Sigurður Einarsson Hlíðar sem áður hafði gefið út Dagblaðið en fyrir því reyndist ekki grundvöllur. Sigurður studdi Sjálfstæðisflokkinn gamla og fékk samflokksmann sinn, Ingimar Eydal kennara, sem meðritstjóra hins nýja vikublaðs sem flutti fréttir af svæðinu.

Ingimar reyndist vinstrisinnaðri en Sigurður og Íslendingur þótti bera þess merki til að byrja með þannig að hann varð að nokkru leyti málgagn fyrir framboð óháðra bænda 1916 sem var undanfari Framsóknarflokksins. Einnig skrifuðu forystumenn verkamanna í blaðið. Það fór því svo að ritstjórar Íslendings fóru hvor í sína áttina í stjórnmálum, Sigurður til hægri og Ingimar til vinstri og Íslendingur varð málgagn Sjálfstæðisflokksins á Norðurlandi.

Heimild: Nýjustu fréttir eftir Guðjón Friðriksson