Viktoría eða Vigga eins og við kölluðum hana oftast, hefur alltaf verið hluti af lífi okkar.

Vigga var einstök manneskja, góðhjörtuð með mikinn drifkraft. Heimilið hennar stóð okkur systrum alltaf opið og hún var ætíð tilbúin að leggja sitt af mörkum við hvaða verkefni sem hún var beðin um.

Þrátt fyrir flókin og stundum erfið fjölskyldutengsl þá gerði Vigga okkur kleift að eiga gott og innilegt samband við bróður okkar. Hátíðisdagar eins og jólin voru okkur mikilvæg og enn í dag höldum við systkinin jólin saman.

Við munum ávallt minnast hennar með hlýju, væntumþykju og þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum að njóta með henni.

„Þó daginn stytti og dragi fyrir sól
Við dægurstrit er tímans vani ól
Þá getum við þó komi fram á kveld
Kveikt upp ljós við minninganna eld.“

Úr bókinni „Tilfinningar“ eftir Guðrúnu Jóhannsdóttur

Elsku Snorri, Bjartmar, Karítas og Berglind, við samhryggjumst ykkur innilega. Minning hennar mun lifa með okkur.

Melkorka og Þorkatla Sigurðardætur