Lífsstarf Gunnars var ótrúlega fjölbreytt, því ásamt venjulegum smíðum vann hann af ástríðu að viðgerð gamalla bygginga og gerð tilgátuhúsa,“ segir Málfríður Finnbogadóttir verkefnastjóri. Hún er í hópi fólks sem stendur að málþingi í Þjóðminjasafninu í dag milli klukkan 13.15 og 15.45, í minningu Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara. Hann lést fyrir fimm árum en hefði orðið sjötugur í ágúst síðastliðnum.

„Gunnar var vinur minn sem fór alltof fljótt. Ég er ekki smiður en heillaðist af miðaldavangaveltum hans og nákvæmni í öllu handbragði. Hann grúskaði mikið og vann að gerð tilgátuhúsa eins og Auðunarstofu á Hólum, Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal, Eiríksstaða í Dölum og Þórhildarkirkju á Grænlandi,“ segir Málfríður og nefnir að við slíka iðju hafi menn orðið að smíða sér öll verkfæri sem notuð voru. Hún tekur fram að málþingið sé þó ekki haldið einungis til að upphefja Gunnar heldur líka til að vekja áhuga fólks á gömlu handbragði. „Okkar draumur er að ungt fólki taki við kyndlinum og beri hann áfram.“

Málfríður segir Gunnar hafa byrjað ungan að smíða og fylgjast með föður sínum, smiðnum Bjarna Ólafssyni, sem var stundum að vinna á vegum Þjóðminjasafnsins við að skoða húsaarfinn og dytta að honum. „Í Vestmannaeyjagosinu var safnkostur Eyjamanna sendur á Þjóðminjasafnið og Gunnar var settur í að rýma til fyrir honum. Þá hefur hann hönd á sverði frá 10. öld og ákveður að smíða sér þannig sverð og nota í það bílfjöður úr rússajeppa. Þetta varð tveggja ára vinna en sverðið varð svo flott að Þjóðminjasafnið fékk það sem sýningargrip. Hjöltun skreytti hann með silfri og kopar, hann steypti döggskóinn að sænskri fyrirmynd, óf fetilinn og bjó til slíður. Þetta var fyrsta stykkið. Svo var hann fenginn til að vinna við Þjóðveldisbæinn sem Hörður Ágústsson teiknað sem tilgátubæ, þar kynntist Gunnar Norðmanni, fór svo til Noregs og bætti við sig þekkingu.“

Meðal verka sem Gunnar kom að er uppgerð á Nesstofu, Viðeyjarstofu og húsa í Vigur, að sögn Málfríðar. „Kristín Sverrisdóttir, konan hans, fór í gegnum starfsdagbækurnar hans og það voru svona 120 verkefni úti um allt land sem hann kom að viðgerðum á, samt var hans aðalstarf að smíða fyrir Jón og Gunnu sem venjulegur smiður.“

Á málþinginu verður lítil sýning á smíðisgripum Gunnars, dagbókum og myndröðum af viðgerðum sem Málfríður segir frábært kennsluefni.