Þegar ég var lítill strákur heimsótti ég Byggðasafnið á Selfossi. Þar var flottasti gripurinn stórt og mikið píanó sem var sagt úr Húsinu á Eyrarbakka,“ segir Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga. „Píanóið var falskt og enginn mátti koma við það, safnstjórinn var mjög harður á því.“

Árið 1992 tók Lýður við störfum á Byggðasafni Árnesinga, en sama ár var ákveðið að safnið skyldi flutt í Húsið á Eyrarbakka, og píanóið góða færi aftur til síns upprunalega heima. En áður fór það í viðgerð til Guðmundar Stefánssonar hljóðfærasmiðs í Reykjavík.

Hann gerði það upp og komst að því að það væri frá árinu 1871. Þegar Húsið var tilbúið eftir viðgerðir Þjóðminjasafnsins árið 1995 komst píanóið því aftur heim. „Ég hélt alltaf að þetta væri elsta píanóið frá tímum faktóranna,“ segir Lýður.

Um aldamótin síðustu komst Lýður hins vegar yfir sjálfsævisögu Hans B. Thorgrimsen sem fæddist í Húsinu árið 1853. Í henni greinir Hans frá því að það hafi verið píanó í húsinu þegar hann ólst þar upp sem væri eldra. „Ég gerði einfaldlega ráð fyrir því á þeim tíma að það væri ekki lengur til,“ segir Lýður.

Enn líður tíminn og síðasta maí fær Lýður upphringingu frá Glúmi Gylfasyni, gömlum kennara sínum og söngstjóra Selfosskirkju, sem sagði honum frá því þegar hann hitti safnvörð Byggðasafnsins á Selfossi á sjötta áratugnum. „Safnvörðurinn talaði þá við Glúm um píanó sem hefði verið í Húsinu en væri í eigu ættar Glúms,“ segir Lýður.

Formóðir og forfaðir Glúms, Helga Vigfúsdóttir og Siggeir Torfason, kynntust í Húsinu um 1870. Hún var vinnukona en hann verslunarþjónn. Þau giftust og fluttu til Þorlákshafnar. Á þeim tíma var nýrra píanóið komið í Húsið og gáfu húsráðendur Helgu og Siggeiri það gamla að gjöf.Píanóið hefur síðan verið í eigu afkomenda þeirra, allt þar til í síðustu viku þegar Byggðasafn Árnesinga fékk það að gjöf.

„Einn afkomendanna, Halla Helgadóttir, ákvað ásamt systkinum sínum að þau vildu gefa byggðasafninu píanóið gamla,“ segir Lýður sem fletti upp raðnúmeri sem var áletrað á píanóið. Eftir nokkra leit kom í ljós að það var úr smiðju Charles Cadby og frá árinu 1855 sem stemmir við frásögn Hans. B. Thorgrimsen. Nú eru píanóin í Húsinu því orðin tvö.

„Það eldra er reyndar pínu falskt, en það er vel hægt að spila á það ragtime músík þótt það sé komið til daga sinna,“ segir Lýður og hlær.