Háskólaútgáfan gaf nýlega út bækurnar Arfur aldanna 1-2 þar sem gerð er grein fyrir fornaldarsögum, uppruna þeirra og útbreiðslu. Höfundur bókanna, Aðalheiður Guðmundsdóttir prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, segir bindin tvö vera tilraun sína til að kortleggja varðveislu þessara sagna. „Hugmyndin var að rannsaka og gefa út grundvallarrit um fornaldarsögur, með áherslu á efniviðinn og síbreytileika hans,“ segir hún og bætir við að bindin verði alls fjögur. „Fyrsta bindið fjallar um arfinn eins og hann sprettur upp víða í Evrópu og í öðru bindi færum við okkur til Norðurlanda.“

Í þriðja bindi verður förinni svo heitið til Íslands, þar sem Aðalheiður mun rekja varðveislu sagnanna í handritum, leifar og spor af arfinum hér, og í fjórða bindi verður arfleifð efnisins og áhrif þess tekin fyrir. „Þannig er heildarverkið hugsað,“ segir hún.

Í bókunum tekur Aðalheiður fyrir ólíkar heimildir frá ýmsum löndum og skoðar allt sem telst vera spor og leifar í heimildum, á borð við sagnarit, annála, myndheimildir og annað, sem bendir til þess að efni fornaldarsagnanna hafi verið í umferð í öðrum löndum.

Sautján alda saga

Tímarammi bókanna er ansi breiður.

„Ég byrja á því að bera sagnaefnið saman við atburði sem áttu sér stað á þjóðflutningatímanum, allt frá 4. öld fram á þá 6., en auðvitað yngra efni líka. Þegar fókusinn færist svo yfir til Norðurlandanna fæst ég einkum við efni frá 9. öld og síðar,“ útskýrir Aðalheiður. „Þegar komið er til Íslands tek ég svo fyrir eiginlega allt skrifað efni alveg fram til 19. og jafnvel 20. aldar, til að skoða hvernig efniviðurinn lifir áfram í kvæðum og afleiddum sögum. Þetta er eiginlega sautján alda saga!“

Aðalheiður segir að Íslendingar og Norðurlandabúar almennt, eigi það til að eigna sér sögur sem eigi þó rætur sínar að rekja víða um Evrópu.

„Sem dæmi má nefna allt Völsungaefnið sem var útbreitt meðal ýmissa þjóða,“ segir hún. „Þegar skrifað er um Sigurð Fáfnisbana á 13. öld á Íslandi, hafa sögur um hann verið sagðar lengi annars staðar, eða þá að flutt hafa verið um hann hetjukvæði.“

Þá hættir okkur einnig til að hugsa um Brynhildi Buðladóttur og þær söguhetjur sem Wagner gerði frægar með óperum sínum sem okkar eigin, en Aðalheiður segir þær hafa verið til í sögnum annarra landa líka í fjölbreyttu formi. „Það sem vakir fyrir mér er að rekja þennan margbreytileika og draga upp eins konar heildarvarðveislumynd.“

Bókmenntamósaík

Spurð hvað sé í uppáhaldi nefnir Aðalheiður Völsunga sögu og Hervarar sögu og Heiðreks.

„Mér finnst samt nær allar sögurnar mjög skemmtilegar,“ segir hún, en næsta verkefni hennar verður að gefa fornaldarsögurnar út fyrir Íslenzk fornrit, „en við verðum tvær sem komum að þeirri vinnu. Það verður gaman að geta tekist á við sögurnar textafræðilega, því Arfur aldanna er meira um efniviðinn á bak við textana.“

Áhrif sagnanna segir Aðalheiður að nái víða og það sé gaman að skoða hvernig yngri sögur mótast af þeim eldri.

„Íslendingar eru vanir að tala um fornaldarsögurnar sem afþreyingarbókmenntir og skáldskap með takmarkað listrænt gildi, en ég sé bókmenntasöguna fyrir mér sem risastóra og flotta mósaíkmynd þar sem hver saga er eitt brot,“ segir hún. „Hver saga á sér tilverurétt – og er reyndar ómissandi – í þessari stóru mynd.“