Það er annatími hjá okkur núna en reyndar erum við að útbúa muni á jólamarkaðinn allt árið um kring,“ segir Óskar Albertsson, fjölmiðlafulltrúi handverkstæðisins Ásgarðs í Mosfellsbæ. „Markaðurinn hefur alltaf verið fyrsta laugardag í desember en eins og alþjóð veit var sá dagur upptekinn þetta árið svo við ákváðum að fresta honum um eina viku og því er hann nú 8. desember. Við verðum í jólaskapi.“

Óskar segir markaðinn haldinn milli klukkan 12 og 17, í bröggunum, verkstæði starfsfólksins sem er um 40 talsins. „Við erum samtaka og andinn góður. Það fór dálítill kúfur af lagernum þegar við vorum í Kringlunni um miðjan nóvember svo við þurftum að bretta svolítið upp ermar og spýta í lófa.“

Eins og áður koma tónlistarmenn og syngja og spila um klukkan tvö og í matsalnum verður súkkulaði með rjóma til sölu og veitingar af kökuhlaðborði að sögn Óskars. „Bakarar styrkja okkur rausnarlega en við útbúum súkkulaðið sjálf og það er sko ekta súkkulaði eins og í afmælismyndinni hans Davíðs Oddssonar. Ekkert kakósull!“

gun@frettabladid.is