Það er óhætt að segja að það séu heldur skrítnir tímar sem við erum að upplifa núna, en reynum að láta það ekki setja allt úr skorðum heldur laga okkur að aðstæðunum, segir Knútur Rafn Ármann á Friðheimum, sem ásamt konu sinni, Helenu Hermundsdóttur, rekur þar veitingasölu og viðamikla grænmetisræktun. Einkum eru það hinir gómsætu tómatar sem marga laða þar að og afurðirnar úr þeim.

Knútur segir þau hjón hafa verið í samskiptum við sóttvarnalækni og landlækni og lýkur lofsorði á það fagfólk fyrir að vera í góðum tengslum við landsmenn. „Við fylgjum þeirra leiðbeiningum í hvívetna og tökum þeim fegins hendi. Breyttum uppröðun á borðum í salnum og pössum upp á hámarksfjölda. Högum líka þrifum og öllum starfsháttum eins og gert er ráð fyrir. Þar af leiðandi höfum við tekið þá stefnu að vera til staðar meðan ekki er útgöngubann. Bæði er svolítið um erlenda ferðamenn, þó þeim hafi verulega fækkað að undanförnu og svo hefur umferð Íslendinga aukist mikið í miðri viku. Þeir eru þá komnir upp í bústað og eru auðvitað líka alltaf eitthvað á ferðinni um helgar. Fólk þarf að fá sér frískt loft og okkur finnst það ákveðin samfélagsleg ábyrgð að skella ekki í lás, heldur halda lífinu gangandi. En að sjálfsögðu tökum við öllum tilmælum sem að okkur er beint.“

Þau Helena eru ekki ein á staðnum en Knútur segir þau búin að skipta starfsfólkinu niður í hópa. „Við erum með mismunandi matar- og kaffitíma fyrir þá hópa, þannig að við erum með veggi milli deilda hjá okkur.“

Auk veitingastaðarins eru þau Knútur og Helena með Litlu tómatbúðina. Hún er í anddyrinu. „Þangað kemur fólk og sækir sér það sem við köllum matarminjagripi, það sem við erum að rækta, tómata, gúrkur, salat og kryddjurtir. Líka súpur til að fara með í bústaðinn eða heim.“

Knútur telur alheimsfaraldurinn sem nú geisar opna augu okkar Íslendinga á nauðsyn þess að geta verið sjálfum okkur nóg um matvæli. „Það sáum við líka í hruninu. „Við finnum það á svona tímum hvað matvælaöryggið í landinu skiptir gríðarlegu máli. Þá kunnum við að meta það að eiga okkar sterka landbúnað. Það er alltaf verið að tala um gæði, hollustu og heilnæmi og á Íslandi erum við svo heppin að eiga frábæra vöru sem uppfyllir þau skilyrði. Við erum með hreint vatn, engin eitur- eða varnarefni og við erum nálægt markaðinum, þannig að við getum boðið upp á vöruna ferska og með góð bragðgæði. Síðan koma loftslagsmálin inn í og þar tikkum við í öll box. Auðvitað eigum við að kaupa vöru sem er ræktuð í heimalandinu í stað þeirrar sem ferðast er með yfir hálfan hnöttinn. Kolefnisfótsporin skipta máli ef við ætlum að skila jörðinni í góðu ásigkomulagi til barnabarnanna okkar.“

Knútur og Helena eru svo heppin að geta tínt tómatana vel rauða af plöntunum sínum og þeir eru komnir á veisluborðin sama dag. „Það sem við tíndum í morgun kemur til Reykjavíkur klukkan tvö og kemst í kæliborðin fyrir lokun verslana í dag, eða í síðasta lagi í fyrramálið,“ bendir Knútur á. „Við getum leyft þeim að þroskast og roðna á plöntunum og þar með koma hámarksbragðgæði fram, því sætan kemur í lokin. Ef við værum að senda þá til Afríku þyrftum við að tína þá fölari, þeir mundu þroskast á leiðinni á markaðinn en fengju aldrei sömu bragðgæði.“

Knútur segir þessa COVID-19 tíma snúna fyrir ferðaþjónustuna almennt og af því hafi hann áhyggjur. Líka af því hversu langan tíma það geti tekið fyrir hlutina að komast í samt lag aftur. „Það skiptir gríðarlegu máli að stjórnvöld komi rétt að þessu,“ segir hann og bætir við. „Þetta eru stór verkefni og vandasöm.“