Samkeppnin að þessu sinni snýst um að handprjóna vesti á barn eða fullorðinn úr íslenskri ull og þemað er áferð í náttúru Íslands. Skilafrestur er til 1. maí. Það verður spennandi að sjá vestin og sögurnar bak við hugmyndina.“ Þetta segir Svanhildur Pálsdóttir, húsfreyja á Stóru-Ökrum í Skagafirði, innt frétta af árlegri hönnunar-og prjónasamkeppni sem haldin er í tengslum við Prjónagleði á Blönduósi. Hún bendir á að orðið áferð bjóði upp á skemmtilegar útfærslur, ekki bara í litum og mynstri heldur sé íslensk ull til í margs konar grófleika, fjölbreytnin sé alltaf að aukast með tilkomu smáspunaverksmiðja og heimaframleiðslu. „Það er mikil vakning í ullarvinnslu,“ tekur hún fram.

Verðlaun eru veitt

Prjónagleði hefur verið haldin árlega aðra helgi júnímánaðar frá 2016, að undanskildu síðasta ári. Hún byggist á fjölbreyttum námskeiðum, fyrirlestrum og prjónatengdum viðburðum og er jafnan vel sótt, að sögn Svanhildar. „Fyrir hátíðina er alltaf efnt til hönnunar- og prjónakeppni, afurðirnar sýndar á Prjónagleðinni og verðlaun veitt fyrir efstu þrjú sætin. Þar hefur margt flott komið fram á síðustu árum enda er verið að virkja sköpunargáfu þátttakenda, en ekki endilega prjóna eitthvað sem hentar til fjöldaframleiðslu.“

Þræðir liggja milli landa

Svanhildur segir muni í keppnina koma víða að, meðal annars frá erlendum listamönnum sem hafa notið dvalar í Textílmiðstöðinni á Blönduósi. Margir haldi tengslum við staðinn og taki þátt í því sem þar er í boði. „Á síðasta ári var ekki tekið við munum í keppnina, enda fyrirsjáanlegt að engin Prjónagleði yrði, en fólki bauðst að senda inn myndir af verkefninu sem samkeppnin snerist um, það var áin Blanda, útfærð í húfu. Þá komu margar myndir erlendis frá. Fólk kaupir ull þegar það er á landinu og svo fæst lopi líka víða um heim, kona sem fæst við hönnun í París notar til dæmis mikið íslenskan plötulopa. Svo er verslað á netinu. Okkar prjónahefðir og mynstur flæða úr landi eins og annað flæðir inn. Íslenska ullin er hluti okkar menningararfs en hún tengir fólk og það gerir prjónaskapur líka, það liggja þræðir milli landa.“

Mikið prjónalíf

Á Prjónagleðinni segir Svanhildur yfirleitt boðið upp á fjölda námskeiða í Kvennaskólanum. Einnig sé sölutorg þar sem allt snýst um prjón og vörur tengdar því. „Félagsheimilið hefur oft verið notað fyrir sölutorgið og aðra viðburði,“ segir hún. „Við erum um þessar mundir að skipuleggja prjónatengda viðburði næstu hátíðar, búa til spennandi dagskrá og virkja sem flesta.“

Oft kemur fólk langt að á Prjónagleðina að sögn Svanhildar. „Hér á Norðvesturlandi vestra er líka mikið prjónalíf, eins og annars staðar. Það þarf bara að dreifa orðinu og draga fólk með sér.

Prjónagleði er frábær vettvangur til að koma sér og sínu á framfæri. Líka að upplifa eitthvað skemmtilegt með öðrum sem prjóna og eiga sameiginleg áhugamál.“