Gönguhópurinn Vesen og vergangur fagnar tíu ára afmæli á næstu dögum. Í tilefni þess verður efnt til svokallaðrar Vesenispartíafmælisgöngu næsta föstudag, þar sem tímamótunum verður fagnað með tilheyrandi göngu og gleðskap.

„Þegar ég stofnaði þennan klúbb var tilgangurinn að fara lengri ferðir á borð við þjóðleiðir og þess háttar,“ segir Einar Skúlason stofnandi hópsins. „Það var búið að vera svo mikið vesen að skipuleggja endalausar bílferðir á upphafs- og endastað ferðanna að ég vildi stofna klúbb svo við gætum leigt rútu og losnað við allt þetta skutl.“

Hópurinn var í fyrstu stofnaður sem Facebook-hópur þar sem Einar bauð 200-400 manns sem hann taldi að hefði áhuga á göngum og úr varð fyrsta ganga hópsins. Í kjölfarið fór fólk að sækja um aðild og í dag telur hópurinn um 15 þúsund meðlimi. Einar segir að góður félagsskapur skipti lykilmáli í gönguferðum.

„Það skiptir auðvitað máli upp á öryggið að gera, ef eitthvað kemur upp á,“ segir hann. „Maður fær líka meira út úr hughrifunum ef maður deilir reynslunni með einhverjum og úr endurteknum göngum og samverustundum getur þróast góð vinátta. Fólk fær líka meira úr göngum þegar góður leiðsögumaður er með í för sem stýrir hraðanum, bendir á áhugaverða staði og segir sögur, það er toppurinn.“

Píslargöngur og dansilabb

Einar segir að göngurnar þar sem eitthvað er að veðrinu séu yfirleitt minnisstæðari en aðrar.

„Ég man eftir rigningargöngu þar sem við gengum á móti vindi og regni allan daginn,“ segir Einar. „Hún var haldin á hvítasunnu og titluð sem píslarganga og hún stóð undir því nafni. Við fengum algjörlega það sem við báðum um – það var alveg sama hversu góður fatnaður fólks var, í svona veðri þá kemst vatnið í gegnum allar glufur og allir urðu gegnsósa.“

Að lokum endaði gangan þó í kjötsúpu sem var göngugörpunum kærkomin. „Það er oft eitthvað í gangi eftir ferðirnar,“ segir Einar. „Maður spinnur þetta bara áfram og reynir að hafa þetta skemmtilegt, en oft þarf ekkert að spinna, þátttakendur eru svo frjóir og skemmtilegir.“

Tíu ára afmæli félagsins verður svo fagnað í Elliðaárdal í fyrrnefndri partígöngu.

„Upphaflega átti að vera stórt ball en það eru auðvitað ekki aðstæður til þess í dag,“ segir Einar. „Í staðinn verður þetta undir berum himni með tónlist, söng og veitingum, eða það sem systir mín myndi kalla „dansilabb“. Við ætlum að reyna að skemmta okkur saman á sama tíma og við höldum smitmöguleikum í lágmarki.“

Áhugasamir geta kynnt sér Vesen og vergang betur á Facebook-síðu félagsins.