Það stendur til að gera nýja seríu sem tengist þáttunum Heima með Helga. Síminn hefur forgöngu um það. Við ætlum að taka eitt skref upp á við og vera ekki einungis með tónlist heldur líka annað skemmtiefni, segir hinn sívinsæli Helgi Björns, sem er á göngu með hundinn sinn í Hljómskálagarðinum þegar ég hringi. Hann er með fleiri en einn síma og þeir kvaka til skiptis, að mér skilst.

Nýi þátturinn verður í galopinni dagskrá og mun heita Það er kominn Helgi! „Þetta verður klukkutímaþáttur á laugardögum og hefst klukkan átta. Þar verður tónlist, ég verð með hljómsveitina Reiðmenn vindanna og síðan fáum við gesti. Það verður aðeins meira spjall en í fyrri þáttunum og fjölbreyttari dagskrá. Þetta verður svona gamaldags skemmtiþáttur með blönduðu efni,“ lýsir goðið.

Fyrsti þátturinn af Það er kominn Helgi! fer í loftið 19. september, að öllu forfallalausu, að sögn Helga. „Við erum bara á fullu núna í undirbúningsvinnu fyrir þættina,“ lýsir hann. „Þetta verður eins og að bjóða fólki heim í kvöldvöku. Það er gaman að breyta aðeins til þó að þættirnir verði ákveðið framhald af Heima með Helga. Við verðum þarna á svipuðum nótum og það verður afslappað og létt andrúmsloft.“

Þættirnir eru ekki það eina sem Helgi er að skipuleggja. Á dagskránni fram undan er líka tónleikasyrpa í Háskólabíói sem hann þurfti að fresta í vor. „Við vorum með í undirbúningi það sem við kölluðum Sumarhátíð Helga Björns, sem átti að vera í apríl í Háskólabíói og við þurftum að færa. Ætluðum að halda hana núna síðustu helgina í ágúst og ég var með marga tónleika uppselda. Nú þurfum við að fresta hátíðinni aftur. Þetta er svolítið veruleiki tónlistarmannsins í dag. Án þess að ég ætli að væla þá er slæmt ástand hjá mörgum í þeirri stétt sem hafa ekki haft neina vinnu síðan í mars.“

Ertu kominn með nýjar dagsetningar fyrir hátíðina? „Já, hún verður ekki beint sumarhátíð, heldur höfum við sett hana á dagsetningarnar 22., 23. og 24. október og 30. og 31. Vonandi getum við haldið hana þá og erum að vinna ákveðið að því, smíða leikmyndir og gera klárt.“