Tónskáldið Gunnar Andreas Kristinsson er að vonum ánægt yfir að nýja platan hans, Moonbow, haldi útgáfuáætlun og komi út í dag á vegum hinnar virtu útgáfu Sono Luminus.

„Það eru átta ár frá því ég gaf út diskinn Patterns, hann fékk góðar viðtökur, meðal annars Kraumsverðlaunin 2013. En Moonbow er mun umfangsmeiri í sniðum, bæði hvað varðar stærð verka og fjölda hljóðfæraleikara,“ segir Gunnar Andreas og upplýsir að flytjendur á Moonbow séu Caput, Strokkvartettinn Siggi og Duo Harpverk.“

Þess má geta að titilverk plötunnar var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2017.

Kófið ekki alslæmt

Nýjasta COVID-bylgjan hefur sett margt úr skorðum hjá Gunnari. Electra Ensemble ætlaði að frumflytja nýtt verk eftir hann í Hafnarborg nú á sunnudaginn og tónlistarævintýrið Búkolla átti að hljóma í fyrsta sinn sama dag, á Barnamenningarhátíð Reykjavíkur. Hvoru tveggja hefur verið frestað en upptökur á Búkollu verða um næstu mánaðamót. Myrkir músíkdagar falla að mestu niður þetta árið, því verður ekkert af flutningi Caput á tónlist af nýja diskinum í dag. En við dveljum ekki við þau vonbrigði heldur snúum okkur að nýju plötunni og hvort það teljist gæðastimpill að fyrirtækið Sono Luminus gefi hana út. Tónskáldið segir ferlið hafa verið spennandi og aðdragandann langan.

„Sono Luminus hefur áttað sig á að það er margt gott að gerast hér á Íslandi í tónlist og er búið að gefa dálítið út, meðal annars plötu með Caput hópnum og Strokkvartettinum Sigga.“

Nýja platan var tekin upp hér á landi í síðustu viku febrúar í fyrra, að sögn Gunnars.

„Daginn eftir að upptökum lauk var fyrsta COVID-smitið greint á Íslandi. „Það var rosa heppni að ná að klára. Upptökumenn frá Bandaríkjunum komu sérstaklega fyrir þetta verkefni og þeir hafa ekkert getað flakkað, að ráði, eftir þetta. Það er einhver verndarengill yfir þessu verkefni,“ lýsir hann.

Gunnar segir alla sali Hörpu góða fyrir upptökur.

„Við vorum í Kaldalóni og Norðurljósasal sem er algengt að nota fyrir þessa tegund tónlistar. Sono Luminus er með sérstaka upptökutækni. Dreift er úr hljóðfæraleikurunum og hljóðnemunum) raðað í hring, þá hljómar tónlistin eins og hlustandinn sé í miðjunni þegar diskurinn er spilaður. Reyndar er þetta tvöfaldur diskur, einn venjulegur steríódiskur og annar fyrir stærra hátalarakerfi, þar fæst þessi hringtilfinning,“ útskýrir hann og kveðst í raun ekki hafa samið verkin með slíkar upptökur í huga „En það er mikil vinna lögð í verkin, búið að æfa þau rosalega vel og í upptökunum nást fram öll smáatriði í tónlistinni sem tapast kannski á venjulegum tónleikum. Þarna er gríðarleg einbeiting lögð í að fá allt rétt og það er ég afar þakklátur fyrir.“

Framhlið plötuumslagsins.

Túlkar flekaskil í tónverki

Fyrir utan háskóladvöl bæði í Þýskalandi og Hollandi kveðst Gunnar Andreas alltaf hafa búið í Reykjavík eftir að hann flutti, sjö ára, heim frá Danmörku með foreldrunum sem höfðu verið þar í námi. Hann kveðst ekki vera úr tónlistarfjölskyldu en hafa þótt gaman að glamra á hljóðfæri þegar hann var í heimsókn hjá fólki sem átti orgel eða píanó.

„Það var kannski þess vegna sem ég var settur í nám og svo var splæst á mig hljóðfæri heima.“

En á hvaða hljóðfæri verða tónverkin til?

„Ég notast við píanó stundum, aðrar hugmyndir verða til í höfðinu, ég get nokkurn veginn ímyndað mér hvernig hlutirnir hljóma nú orðið. Allt endar svo á að fara inn í nótnaskriftarforritið í tölvunni.“

Meðal þess sem eftir Gunnar Andreas liggur er hljómsveitarverk sem heitir Flekar og á að túlka flekaskil. Það var frumflutt á Þjóðlagahátíð á Siglufirði 2019 af Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og ný endurgerð þess átti að vera á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í lok janúar á þessu ári en þeir tónleikar féllu niður. Náttúruöflin tóku málin í sínar hendur.