Tækið sem við erum að þróa er sérstakt tölvuforrit, sem byggir á gervigreind. Það les segulómmyndir af heila og skilar nýjum og næmum upplýsingum úr þeim á sjálfvirkan hátt. Þær upplýsingar geta mögulega flýtt fyrir greiningu á heilabilunarsjúkdómum og aðstoðað við að finna þá sjúkdóma sem eru meðhöndlanlegir á byrjunarstigi, eins og fullorðinsvatnshöfuð. Það er mjög vangreindur sjúkdómur í dag, því það er svo erfitt að greina hann.

Þetta segir Lotta María Ellingsen, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Hún, ásamt þeim Hans Emil Atlasyni, doktorsnema í sömu deild, og Áskeli Löve, lektor við Læknadeild og taugaröntgenlækni á Landspítala, tók þátt í Vísinda- og nýsköpunarkeppni Háskólans í vikunni í flokknum Tækni og framfarir og sigraði ekki bara þann flokk heldur samkeppnina í heild. Verðlaunaféð var samanlagt þrjár milljónir sem aðstandendur fengu. Lotta segir það muni nýtast til að vinna að verkefninu áfram.

„Í okkar nýja tæki einblínum við á ákveðin svæði í heilanum sem hafa sýnt sig að vera tengd heilabilunarsjúkdómum. Bæði stækkuð heilahólf og hvítavefsbreytingar geta verið einkenni slíkra sjúkdóma,“ segir Lotta. Hún segir rannsóknaraðferðir með tækinu mun hraðvirkari en þær sem áður hafi þekkst og þegar notendavænt viðmót hafi verið þróað geri tækið læknum á spítölum kleift að fá nýjar upplýsingar í rauntíma úr segulómmyndum, sem þeir þegar hafa. Það muni því spara tíma og hjálpa læknum að taka upplýstari ákvarðanir en mögulegt er nú.

„Lítið er vitað í dag hvernig heilahrörnunarsjúkdómar byrja. Aðferðin sem við erum að þróa notar gervigreind til að finna breytileika í heilanum sem þessir sjúkdómar valda og getur þannig hjálpað okkur að finna þá fyrr. Það gæti líka hjálpað til við að finna meingerð þeirra og leiða til þróunar í lækningum á þeim,“ segir Lotta sem kveðst hafa stundað þessa þróunarvinnu frá árinu 2015, er hún var rannsóknarprófessor við Johns Hopkins háskólann í Baltimore í Bandaríkjunum. „Ég er enn í samstarfi með læknunum við spítalann þar, ekki síst við að reyna að skilja betur þessa meðhöndlanlegu heilabilun sem kallast fullorðinsvatnshöfuð.

Eftir að Lotta flutti til Íslands 2017 fékk hún Hans Emil doktorsnema til að vinna með sér. „Hans hefur verið að þróa aðferðir sem finna hvítavefsbreytingar í heilanum og fleira, undir minni leiðsögn,“ segir hún. „Svo er hann Áskell Löve röntgenlæknir að hjálpa okkur að nákvæmnisprófa aðferðina og benda okkur á hvað væri gagnlegt fyrir starfandi röntgenlækna. Það er mikilvægt í svona vinnu að hafa sérfræðiþekkinguna á öllum vígstöðvum.“

Kristinn Andersen, formaður dómnefndar, Áskell Löve læknir, Hans Emil Atlason doktorsnemi, Lotta María og Jón Atli Benediktsson háskólarektor. Mynd Kristinn Ingvarsson