Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ), félag verkfræðinga og tæknifræðinga, fagnaði nýlega 110 ára afmæli sínu. Hátíðahöld frestuðust vegna faraldursins og stendur nú til að fagna tímamótunum í kringum Dag verkfræðinnar í október.

„Það stóð til að fagna allt árið með alls konar viðburðum og ráðstefnum en við höfum frestað öllu til haustsins þar sem við ætlum að halda stóran tveggja daga viðburð 20.-21. október,“ segir Svana Helen Björnsdóttir, formaður félagsins. „Við erum einnig að undirbúa kynningarefni þar sem saga verkfræðinnar á Íslandi er rakin til samtímans auk verkfræðilegra áskorana framtíðarinnar.“

Umbrot um aldamótin

Verkfræðingafélag Íslands var stofnað þann 19. apríl 1912. Stofnendur félagsins voru þrettán talsins og var tilgangur félagsins að auka félagslyndi meðal verkfróðra manna á Íslandi og efla álit vísindalegrar menntunar í kringum verklega þekkingu.

„Tilurð Verkfræðingafélagsins er auðvitað nátengd atvinnuþróuninni á Íslandi sem skóp sífellt margbrotnari og vandasamari verkefni,“ segir Svana Helen. „Þannig varð til vísinda- og verkfræðimenntun sem er í öndvegi í atvinnubyltingu nútímans.“

Verkfræðin á Íslandi teygir sig þó auðvitað lengra aftur og nefnir Svana Helen upphaf byggingar Ölfusárbrúnnar 1891 sem dæmi um mikilvæg tímamót. „Hún var fyrsta stóra mannvirkið á Íslandi og tákn um nýja tíma,“ segir hún. „Sama ár lauk Sigurður Thoroddsen, sem má kalla frumherja íslenskra verkfræðinga, prófi í verkfræði í Kaupmannahöfn. Hann sneri heim til Íslands tveimur árum síðar og varð fyrsti landsverkfræðingurinn.“

Áskoranir framtíðarinnar

Í dag eru félagsmenn VFÍ rúmlega fimm þúsund talsins. Tæknifræðingafélag Íslands var stofnað 1960 og voru félagsmenn um 1.300 þegar félagið sameinaðist VFÍ. Svana Helen segir að verkfræðin á Íslandi standi að mörgu leyti vel.

„Við erum stærsta félag tæknimenntaðra á Íslandi og það má segja að við stöndum vörð um gæði verkfræðimenntunar – að allir sem kalli sig verkfræðinga eða tæknifræðinga hafi hlotið til þess næga menntun,“ segir hún. „Við teljum að það sé ekki hægt að leysa framtíðaráskoranir á borð við sjálfbærni, gervigreind og annað nema með fólki með sterka vísindalega þekkingu.“

Svana Helen segir að umfang greinanna sé víðfeðmara en suma grunar.

„Þetta eru ekki bara byggingar eins og fólk tengdi oft við verkfræðina hér áður fyrr. Þá tengdi fólk þetta við hluti eins og hafnar- og brúargerð en nú eru upplýsingatækni, heilbrigðisverkfræði og aðrar nýjar greinar sem krefjast mikillar tækniþekkingar búnar að ryðja sér til rúms.“