Verkefnin á vegum Rauða krossins eru krefjandi en það eru þau sem toga í mig því maður lendir alltaf í nýjum kringumstæðum og kynnist nýjum löndum,“ segir Hlér Guðjónsson, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Hann ætlar til Beirút í Líbanon á næstu dögum að leggja baráttunni gegn COVID-19 lið. „Bólusetningar gegn veirunni eru framkvæmdar af fagfólki á spítölum, með stuðningi Alþjóðabankans, en Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur eftirlit með þeim og í ljósi þess að ég hef ákveðna þjálfun get ég gengið beint inn í starfið. Við fylgjumst með þrjátíu spítölum en þetta er ekki eins og lögreglueftirlit heldur er fylgst með birgðum bóluefnis frá Pfizer, flutningi þess og geymslu og líka forgangsröðun bólusetninga svo Alþjóðabankinn viti hvað er að gerast,“ útskýrir hann og reiknar með þremur mánuðum úti.

Þegar kólera geisaði

Á tuttugu árum hefur Hlér starfað sem sendifulltrúi hjá Rauða krossinum með hléum. „Ég held þetta sé þrettánda verkefnið sem ég kem að. Hvert um sig er einstakt. Eitt var í Síerra Leóne í Vestur-Afríku þegar kólera geisaði þar. Þá voru engar bólusetningar heldur var reynt að bregðast við sýkingum og draga úr þeim. Enginn var í skýrslugerð svo ég sá um hana sjálfur því ég hafði kynnst henni,“ segir hann og kveðst sem sendifulltrúi meðal annars hafa fengist við upplýsingagjöf og greinaskrif, fjáröflun og rannsóknir á bókhaldi. „Þó verkefnin séu ólík þá eru alltaf ákveðnir þættir svipaðir í svona mannúðarstarfi og ég nýt þeirrar reynslu sem ég hef fengið áður.“

Hlér bendir á að COVID sé helsti vandinn sem steðji að heimsbyggðinni núna og Líbanon sé þar engin undantekning. Efnahagserfiðleikar séu miklir, gríðarstór sprenging hafi átt sér stað í Beirút í fyrrasumar auk þess sem Líbanon eigi landamæri að Sýrlandi og vandi fylgi flóttamannastraumnum. „Líbanar þurfa aðstoð en það telst samt vera friður þar,“ tekur hann fram.

Fyrsti Hlérinn

Hlér er fæddur árið 1967 og hann ber sérstakt nafn. Þótt það komi auðvitað ekkert Rauða krossverkefnum við get ég ekki stillt mig um að minnast á það. Samkvæmt Íslendingabók er hann sá fyrsti sem var skírður því, en fjórtán bera það í dag, þar af tólf sem millinafn. Hlér segir nafnið koma fyrir í Snorra-Eddu. „Þar er talað um Hlé konung í Hlésey. Þetta er sjávarkenning og kemur til dæmis fyrir í vísunni: Austan kaldinn á oss blés, upp skal faldinn draga. Veltir alda vargi Hlés, við skulum halda á Siglunes.“