Það er heiður að okkar ungmennasamband fái að vera frumkvöðull í að þróa nánara samstarf Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) við héruðin í landinu og grasrótina en hingað til hefur verið. Mér finnst það spennandi. Fleiri koma svo á eftir,“ segir Sigurður Guðmundsson. Hann hefur tekið að sér, fyrir hönd Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), að sinna sérstökum verkefnum fyrir UMFÍ, á sviði fræðslumála og lýðheilsu.

Sigurður er starfsmaður UMSB og kveðst halda því áfram og virkja félagana þar. „Þegar þarf að prófa einhverjar nýjungar þá mun það bitna á íbúum þessa sveitarfélags, þeir verða tilraunadýr,“ segir hann glaðlega og kveðst sjá mörg tækifæri í þeim efnum.

Lýðheilsa og hreyfing er meðal þess sem Sigurður segir alltaf þörf að minna á og efla. „Margir hafa einangrast síðustu mánuði út af COVID-ástandinu. Við munum reyna að búa til verkefni sem fólk getur fundið nýbreytni í og nýtt sér, annaðhvort eitt og sér eða fleira saman. Það þurfa allir hreyfingu við sitt hæfi, næstum sama hvað hún heitir.“

Fimmvörðuháls genginn ásamt konunni, Aldísi Örnu, og Erni Daða, elsta syninum.

Með sveinspróf í húsasmíði

Sigurður er fjögurra barna fjölskyldufaðir og hefur um árabil verið virkur í starfi ungmennahreyfingar og æskulýðsmála. Hann er með B.Sc.-gráðu í íþrótta-, kennslu- og lýðheilsufræðum frá HR, hefur einnig menntað sig í leiðtoga- og frumkvöðlafræðum og almennum íþróttum, auk þess að hafa sveinspróf í húsasmíði. Hann hefur komið að skipulagningu Reykjavíkurmaraþons á vegum Íþróttabandalags Reykjavíkur og verið verkefnastjóri Landsmóts UMFÍ 50+ svo nokkuð sé nefnt.

Sálræn og félagsleg færni

Fleira hyggst Sigurður töfra upp úr hatti sínum nú en heilsueflingu í formi hreyfingar. Hann segir eins víst að hann byrji á að dusta rykið af átaki sem þegar er búið að móta og nefnist Sýnum karakter. „Hugmyndafræði þess byggir á að hægt sé að þjálfa sálræna og félagslega færni eins og þá líkamlegu,“ lýsir hann. Kveðst líka hafa hug á að þróa áfram sjálfsstyrkingarverkefni sem nefnist Sýndu hvað í þér býr, það snýst um að þora að tjá sig.

„Vandamálið á fundum er oft hversu fáir taka til máls, þar til að kaffispjallinu kemur, þá kemur fólk oft með góða punkta sem hefðu betur komið fram fyrr,“ segir hann og bætir við: „Nú gæti verið þörf á að sníða það námskeið að nýjum háttum og samskiptum á þessum veirutímum.“