„Búðinni hefur verið tek ið mjög vel og fjölskylda okkar og vinir hafa staðið við bakið á okkur,“ segir Erla Berglind Antonsdóttir sem nýlega hóf verslunarrekstur í húsi númer 34 við Hafnarbraut á Höfn, ásamt manni sínum Sigurbirni Árnasyni, eins og Eystrahorn greinir frá. Búðin heitir Berg Spor og selur fatnað og skó.
Það er Erla Berglind sem stendur vaktina í Berg Spor. Þegar ég hringi í hana um ellefuleytið kveðst hún vera að opna búðina þann daginn en hún mæti samt klukkan átta. Það kemur í ljós að hún er með saumavél á staðnum og vinnur við merkingar í henni, fyrir fólk um allt land.
„Ég er að merkja fatnað, rúmföt, handklæði, töskur, húfur og svuntur svo eitthvað sé nefnt. Hef verið með vélina heima síðustu sex árin og það er viss léttir að komast með hana út af heimilinu.“
Spurð hvort búðin sé ekki bylting fyrir íbúa á svæðinu, þar sem engin alvöru fatabúð hefur verið á Höfn síðustu misserin, svarar Erla Berglind hógvær. „Jú, en fólkið hér hefur nú samt ekki gengið nakið enda var verslun með vandaðan fatnað í þessu húsi þar til í fyrrasumar, hún var í daglegu tali kölluð Dórubúð. Það brá samt mörgum við þegar hún lokaði. Við verðum alltaf að klæðast.“
Erla Berglind kveðst hafa unnið í Dórubúð í nokkur ár og því vera ágætlega kunnug aðstæðum. Hún segir eigendur þeirrar verslunar, Halldóru Ingólfsdóttur og Einar Karlsson, meðal þeirra sem hafi stutt vel við hina nýju starfsemi í húsnæðinu. „Þau hafa verið okkur hjálpleg.“
Í Berg Spor verslar Erla Berglind með alhliða klæðnað og skó, að eigin sögn. Þó segir hún úrval af sparifatnaði tak markað, áherslan sé meiri á íþrótta- og útivistarföt og einnig kveðst hún vera með garn og lopa. „Svo er Handraðinn, sem selur handunnar vörur heimafólks, líka fluttur í plássið til mín, auk þess sem veitingastaðurinn ÚPS var opnaður í þessu húsi í haust, svo það er heilmikið líf hérna.“