Dúi Landmark hefur verið ráðinn hjá Landgræðslunni til eins árs sem verkefnastjóri miðlunar. Það er nýtt starf. „Landgræðslan er að þróast sem þekkingar- og þjónustustofnun, því er miðlun upplýsinga vaxandi hluti af starfseminni,“ útskýrir hann og bætir við: „Miðað við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem við Íslendingar tökum þátt í, og mikilvægi umhverfisverndar í almennri umræðu, hafa verkefni Landgræðslunnar breyst. Að hluta til snúast þau um að hjálpa náttúrunni að hjálpa sér sjálf, það fer eftir ástandi svæða. Okkar stóra markmið er að vekja almenning til vitundar um að þetta land okkar er stórskaddað. Gróðurþekja þess er aðeins 5% af því sem talið er að hún hafi verið við landnám.“

Eru til gróðurkort frá þeim tíma?

„Nei,“ svarar Dúi. „En við erum að vinna að heildarúttekt á gróðurfari landsins. Ég get bent á svæði innan borgarinnar sem mikið er sótt í til gönguferða, Úlfarsfellið. Það ætti að vera gróðri vaxið upp á topp eins og var við landnám. Sama má segja um marga staði – verkefnið er risastórt.“

Er ekki í lagi að hafa auðnir sums staðar ef þær eru ekki að fara neitt?

„Þegar ég vann sem leiðsögumaður sýndi ég ferðamönnum stoltur auðnir landsins og víðerni. En Ólafur Arnalds gaf út fyrir nokkrum mánuðum rit sem nefnist Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa, hann notar þar hugtakið samdaunasýki. Við venjumst landinu og finnst það eiga að vera eins og það er, en þegar gögn um rannsóknir eru skoðuð kemst maður að raun um annað. Landinu er hollara að vera klætt og í því felst líka stór ávinningur fyrir loftslagið. Við verðum að græða það eins mikið og við getum og vinna að heimsmarkmiðunum.“

Enn þrjóskast ég, bendi á að hægt sé að stíga svo óvarlega til jarðar í uppgræðslu að óafturkræf spjöll verði á íslenskri náttúru, samanber lúpínuna.

„Landgræðslan sáir ekki lengur lúpínu,“ fullyrðir Dúi og viðurkennir að hún hafi reynst of ágeng. „Við munum vinna að því að koma landinu í hægfara bata og til upprunalegs horfs, komandi kynslóðum til hagsbóta á heimsvísu. Okkur langar að vekja almenning til vitundar um hvernig ástandið er og tala meðal annars við fólkið sem mestu máli skiptir, unga fólkið. Við viljum vinna fyrir það og með því.“