Hekla Dögg Jónsdóttir myndlistarkona er fimmtíu ára og einum degi betur og ætlar að halda upp á tímamótin um aðra helgi með listviðburði í léttum dúr.

Hún er í smá pásu frá kennslu í myndlistardeild LHÍ í Laugarnesinu og gefur sér tíma í smá spjall. Er fyrst spurð hvenær hún hafi ákveðið að verða listamaður. „Það kom smátt og smátt. Ég hafði alltaf gaman af myndmennt í barnaskóla og að búa hluti til. Fannst ég samt ekkert besti teiknarinn á svæðinu en hélt þá að það væri mikilvægast í myndlist. Var á tímabili að hugsa um að fara í gullsmíði eða iðnhönnun en í stað þess að fara í Iðnskólann ákvað ég að fara í listadeild Fjölbrautar í Breiðholti. Þar áttaði ég mig á hvað frelsið var mikið í myndlistinni. Umfjöllunarefnið, stefnan og efnið, þessu öllu ræður listamaðurinn og ég verð alltaf þakklát FB fyrir að opna augu mín fyrir því. Það er bara ekki nægur tími til að láta allar hugmyndir verða að veruleika!“

Hekla Dögg var ráðin prófessor við LHÍ 2012 en hafði verið stundakennari áður. „Ég var viðloðandi deildina frá því ég kom úr námi í Kaliforníu og mér fannst strax gaman að kenna. Það var líka frábær leið fyrir mig til að komast inn í myndlistarsenuna og samfélagið.“

Innt eftir eftirminnilegum afmælum frá bernsku kveðst Hekla Dögg eiga mjög listræna móður, Þrúði Helgadóttur, sem hafi látið eftir henni ýmsar óskir í sambandi við afmæliskökur. „Í eitt skiptið vildi ég fá hlaupköku úr jelly og við krakkarnir lékum okkur aðallega að hlaupinu. Í annað skipti bað ég um tertu á mörgum hæðum og úr varð alger regnbogakaka hjá móður minni. Þannig að ég tengi afmælin við mjög sjónrænar tertur!“

Ætlar hún kannski að panta eina hjá mömmu núna? „Ég veit ekki hvort ég fer að ónáða hana en hún kemur sterk inn í afmæli barnabarnanna.“