Jú, þetta er stóri smellurinn, en veiran truflar allar okkar áætlanir um almennileg veisluhöld, lýsir Halldór Friðrik Olesen vélstjóri, inntur eftir hátíðahöldum í tilefni sjötíu og fimm ára afmælisins sem er í dag.

Þegar viðtalið er tekið er hann staddur með frúnni í sumarbústað ofarlega í Grímsnesinu. „Birkið syngur allt af lúsmýi hér en við látum það ekkert trufla okkur,“ segir hann hress. Annars kveðst hann vera Kópavogsbúi. „En ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík, nánar tiltekið í Vogahverfinu, innan um skáldin og nefndu það – en þegar ég fór að búa þá færði ég mig í Kópavoginn.“

Spurður út í helstu viðfangsefni á ævinni kveðst Halldór hafa valið fyrst iðnnám í rennismíði, en dokað stutt við í því fagi og farið í Vélskólann. „Eftir útskrift þar 1969 fór ég beint á hvalveiðar og var á þeim meðan þær voru og hétu fyrir alvöru. Kunni því vel og hef farið í afleysingar eftir að þeim var startað aftur. 1975 fór ég að kenna við Vélskólann, það átti vel við mig en babb kom í bátinn þegar áfangakerfið tók gildi í Sjómannaskólanum af fullum þunga, þá urðum við að fara burtu nokkuð margir kennarar, en ég fékk starf í Slysavarnaskóla sjómanna sem þá var verið að starta. Var þar í ellefu ár á gömlu Sæbjörginni og með námskeiðahald allt í kringum landið, þangað til aftur losnaði pláss fyrir mig í Vélskólanum. Þeir hafa ekkert verið margir húsbændurnir.“

Halldór Friðrik er 75 ára í dag.

Halldór er líka einn af hollvinum hins sextuga varðskips Óðins. „Við erum sex vélstjórar sem höfum sett fastan punkt í tilveruna og hist á mánudagsmorgnum í Óðni vestur á Granda. Erum búnir að vera að klappa vélunum þar í nokkur ár og náðum að gera þær gangfærar á ný, eftir langa stöðu og fórum prufutúr um daginn. Mánaðarlega mæta líka fleiri sem tengjast skipinu og fá sér kaffisopa með okkur, svo það er heilmikill klúbbur í kringum Óðin.“

Vélar um borð hafa breyst mikið frá því Halldór byrjaði sem vélstjóri, að hans sögn. „Hvalveiðibátarnir eru einu skipin í dag með gufuvélar, en nýju skipin ganga fyrir dísil og ýmislegt er fjarstýrt. Maður þarf auðvitað að kunna á hlutina, en með allt öðrum hætti en var. Það er óhætt að segja að maður hoppi aftur í tímann í Óðni.“ En hefur hann komist í hann krappan á sjó? „Nei, ekki get ég sagt það, þótt maður hafi stundum lent í veðrum á haustin við hvalveiðarnar þá slapp allt fyrir horn.“

Svo er það afatitillinn – tímabært að forvitnast um fjölskylduna. „Konan mín heitir Guðný Helga Þorsteinsdóttir og er úr Keflavík. Börnin okkar voru fjögur en við misstum dóttur okkar á besta aldri, það var mikið högg. Afa- og ömmubörnin eru átta, og langafa- og -ömmugrislingarnir tveir. Við vorum búin að stíla upp á að hitta allt þetta góða fólk um helgina í Grímsborgum hjá honum Ólafi Laufdal, en veiran er að eyðileggja það. Við hjónin ætlum bara að verja afmælisdeginum í Stykkishólmi – við sjóinn!“