Listakonan Margrét Bjarnadóttir opnaði sýningu sína Veik um sumar í Gallerí Kverk á laugardag. Margrét hefur fengist við ýmis listform í gegnum tíðina en verður í þetta skipti með vatnslitaverk til sýnis.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég sýni vatnslitateikningar, en ég hef ekki mikið unnið með vatnsliti áður,“ segir Margrét. „Þessi sýning hefur staðið til síðan í vor þegar ég var beðin að vera með sýningu og ég var með einhverjar hugmyndir um hvað mig langaði að gera en ekkert fastmótað. Ég hef mikið unnið með litað gler upp á síðkastið og sá fyrir mér að halda áfram að vinna með þann efnivið í skúlptúrum. Svo er ég að verða fertug á næstu dögum svo ég held að ég hafi séð fyrir mér einhvers konar þungavigtar-fertugs-sýningu.“

Sýningin er tilvistarleg og þar af leiðandi svolítið viðkvæm, segir Margrét.

Þegar sumarið tók við veiktist Margrét, sem hafði í fyrstu áhyggjur af að hún væri komin með Covid og væri búin að smita alla fjölskylduna, þótt síðar hafi komið á daginn að svo var ekki.

„Ég fékk ansi mikinn kvíða í þessum veikindum og byrjaði að vatnslita til að róa sjálfa mig,“ segir hún. „Þetta var einhvers konar náttúrulegt viðbragð til að finna kvíðanum einhvern farveg, en ég var ekki neitt að hugsa um það í samhengi við þessa fyrirhuguðu sýningu.“

Tilfinningin leiddi

Eftir að hafa komið sér í gegnum veikindin með endalausum teikningum, stóð skyndilega eftir sýningin sem verður opnuð í dag.

„Það sem ég hafði upphaflega í hyggju kom ekki náttúrulega til mín, en þessar vatnslitateikningar gerðu það,“ segir Margrét. „Maður stýrir þessu ekki alltaf, því þetta smyglaði sér aðeins fram fyrir.“

Margrét segir sýninguna óhjákvæmilega ansi tilvistarlega og fyrir vikið kannski svolítið viðkvæma og berskjaldaða.

„Það er einhver þráður sem maður getur séð eftir á. Ég vissi ekkert alltaf af hverju ég var að teikna það sem ég var að teikna. Ég ákvað það ekki beint, það var miklu frekar tilfinning sem leiddi. En stundum var ég líka að reyna að gefa mér einhver verkefni: Teiknaðu gleraugu, teiknaðu hurð – en eftir á þá er einhver frásögn og ástand í þessu sem fólk getur upplifað þegar það skoðar verkin.“