Aldurinn er ekkert til að velta fyrir sér. Þar er bara tvennt í stöðunni í mínu tilfelli, að vera 75 ára eða dauður og ég vil heldur vera 75 ára,“ segir Kjartan Ragnarsson, leikskáld með meiru. Hann kveðst hafa í nógu að snúast þó ekki sé það allt jafn ánægjulegt. „Við vorum að loka Landnámssetrinu í vikunni. Okkar rekstur hefur byggst 95% á erlendum gestum,“ segir hann. Vonar hann að um tímabundna lokun sé að ræða og telur ekki útilokað að dagskrá verði á Söguloftinu í vetur.

Kjartan og kona hans, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir – Sirrý, opnuðu téð setur í Borgarnesi 2006 og hafa staðið vaktina síðan. Hann segir reksturinn hafa gengið vel þar til nú og gestir farið yfir 100 þúsund á ári þegar best lét. Þau hjón eru nýkomin úr ferðalagi með starfsfólkinu. „Það var sálrænt gott fyrir okkur öll að gera eitthvað skemmtilegt saman daginn eftir að við lokuðum svo við skruppum í Búðardal og heimsóttum Vínlandssetrið, sem við Sirrý hönnuðum og opnað var í júlí. Undirtektir við því fóru fram úr öllum vonum.“

Nú vil ég vita eitthvað um afmæli Kjartans í æsku. „Ég fór jafnan í sveit í byrjun maí þegar ég var barn, til föðurfólks míns í Stóra-Saurbæ í Ölfusi. Var mikill sveitamaður og vildi absalút vera fram yfir réttir. Á vorin var sáð í lítinn rófugarð handa mér og á afmælinu mínu fór ég með krökkunum í sveitinni í garðinn og við átum rófur. Það var afmælisveislan,“ rifjar hann upp.

Spurður hvort listin hafi snemma togað í hann, svarar Kjartan. „Ég ólst upp með myndlist. Pabbi var skólastjóri Myndlistarskólans og ég byrjaði þar í barnadeildinni sem smákrakki, svo var ég fyrirsæta í fullorðinsdeildum á kvöldin þegar pabbi var að kenna teikningu í höggmyndadeildinni, þannig fékk ég vasapeninga. En leiklistin fór að toga í mig þegar ég var níu ára. Þá fékk ég að leika á litlu jólunum í Melaskólanum í pínulitlum þætti sem hét Vasaklúturinn, ásamt Helga Þorlákssyni, seinna sagnfræðingi. Þegar ég kom heim sagði ég: Ég ætla að verða annaðhvort leikari eða hljóðfæraleikari.“

Síðar kveðst Kjartan hafa sótt skóla Leikfélags Reykjavíkur og leikið þar merkilegt hlutverk Grúsa ræningja í barnaleikritinu Almansor konungsson sem sýnt hafi verið í Tjarnarbíói. „En fyrsta fullorðinshlutverkið var alveg eftir bókinni, þá lék ég glæpamanninn Babyface í verkinu Sú gamla kemur í heimsókn, sem var allsvakalegt verk,“ segir hann og kveðst ekki hafa tölu á sínum hlutverkum. „Ég var virkur leikari frá því ég útskrifaðist sem slíkur 1966 þar til ég skrifaði Saumastofuna 1975, eftir það var ég aðallega leikstjóri og höfundur, lék eitt og eitt hlutverk en færðist aðallega yfir í það að skrifa og móta leikrit.“

Þá er hann inntur eftir tölu á eigin leikritum. „Ef ég tel með þau sem ég hef samið upp úr ritverkum annarra, svo sem Sjálfstætt fólk og Heimsljós, þá eru þetta held ég 35 verk. Ég skrifaði eitt leikrit á ári frá 1975 til ‘95 og eitt árið tvö. Svo var Heimsljós, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu 2012, það síðasta.“ Auk þess kveðst hann hafa samið textann í Landnámssetrinu og á sýningunni í Vínlandssetrinu. „Ég á tvennt af svipuðum toga, samið og teiknað upp. Annars vegar um Þjóðveldi Íslands frá stofnun Alþingis þar til við gengum undir Noregskonung og hitt úr Norrænni goðafræði. Það er svipað og að eiga leikrit í skúffu. En það kostar sitt að búa til svona sýningar og einhver verður að hafa þörf fyrir þær.“

Á að halda upp á afmælið? „Við gerum eitthvað, hjónakornin. Förum kannski á eitthvert hótel eftir frumsýningu á Oleanna í Borgarleikhúsinu. Sirrý átti stórafmæli fyrir tíu dögum, við erum bæði í meyjarmerkinu, voðalegar kellingar!“