„Þetta er ekkert svo algengt í þjóðsögunum því þetta voru mál sem var ekki mikið talað um á þessum tíma,“ segir Dagrún. „Þau tilfelli þar sem það birtist varpa þó mjög góðu ljósi á hvernig var hugsað um þetta á þessum tíma, og þau þemu sem birtast þarna sjáum við ennþá í umræðunni í dag. Að sjá þetta í þjóðsögunum sýnir kannski hversu gamlar og rótgrónar sumar þessar hugmyndir eru.“

Speglun við samtímann

Dagrún, sem rannsakaði þjóðsögur í útgefnum söfnum frá 19. og 20. öld, segir að það geti skipt máli hver segi frá.

„Langflestum þjóðsögum er safnað og þær gefnar út af körlum, en við erum svo heppin að eiga eitt þjóðsagnasafn sem er safnað af konu, en það er safn Torfhildar Þ. Hólm,“ segir Dagrún og bætir við að safn Torfhildar sé aðeins öðruvísi. „Þar fáum við fleiri sögur af heimilisofbeldi en í hinum söfnunum. Þar birtast líka aðeins önnur sjónarhorn, til dæmis eina dæmið um konu að tala við konu.“

Aðspurð segir Dagrún að eitt og annað hafi komið sér á óvart við rannsóknina. „Það sem kom mér kannski leiðinlega á óvart var hve sterk þessi speglun við samtímann var og raun ber vitni.“

Þá segir hún að einnig hafi komið á óvart að skoða niðurstöðurnar ekki einvörðungu út frá kyni heldur einnig stétt. „Við gætum vel ímyndað okkur að þá eins og alltaf hafi ofbeldi gagnvart konum sem tilheyra jaðarhópum verið algengara en ekki, en það er ekki raunin í þjóðsögunum,“ segir hún. „Það eru iðulega konur af efri stéttum, bændadætur eða prestsdætur sem lenda í ofbeldi. En það segir okkur kannski líka að það hafi þótt frásagnarverðara en hitt.“

Óvæntur kynjavinkill

Dagrún hefur lengi haft áhuga á dökkum hliðum menningararfsins en hún skrifaði BA-ritgerð sína um mannát í þjóðsögunum. „Þaðan spratt upp áhugi minn á birtingarmynd kvenna í þjóðsögunum, því þar er mjög óvæntur kynjavinkill,“ útskýrir hún. „Þar eru yfirleitt konur, tröllskessur, sem borða saklausa karlmenn. Svo skrifaði ég meistaraverkefnið mitt um andaglas í samtímanum og unglinga sem fara í andaglas.“

Viðburðurinn hefst klukkan 17 í kvöld og er gjaldfrjáls. Dagrún hvetur öll þau sem hafa áhuga á þjóðsögunum og kynjajafnrétti til að koma við.