Þörungar eru góðir til matar og þrungnir af bæti- og steinefnum,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir. Hún er höfundur bókarinnar Íslenskir matþörungar sem Sögur voru að gefa út og er sú fyrsta sinnar tegundar.

Íslendingar nýttu þörunga áður fyrr og hefðu ekki lifað af gegnum aldirnar ef þeir hefðu ekki kunnað það, að sögn Eydísar. „Söl voru eini C-vítamíngjafinn sem Íslendingar höfðu yfir vetrartímann. Þau voru flutt yfir fjallgarða til þeirra sem ekki höfðu aðgang að þeim í náttúrunni, enda létt og oft hluti af verslunarvöru.“

Harðfiskur, söl og smjör – holl og góð þrenning. Mynd/Karl Peterson

Silja Dögg Gunnarsdóttir, sagnfræðingur og alþingismaður, lagði Eydísi lið við efnisöflun. En þó bókin miðli fróðleik um fyrri tíð, þá kennir hún líka nútímafólki að nýta sér þörunga til matar. Eydís bendir á að hráefnið nori, sem vafið er utan um sushi, sé gert úr rauðþörungum og gefur mörg fleiri dæmi um nýtingu þörunga. Hún fékk Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistara til að útbúa ýmsar krásir úr þeim og myndir sem Karl Peterson tók eru augnayndi í bókinni. En hvað kom til að Eydís fékk áhuga á þessu efni?

„Ég lærði landfræði í Danmörku en kom heim í hruni og fékk enga vinnu svo ég neyddist til að fara í meistaranám og tók þá umhverfis- og auðlindafræði í HÍ. Á þeim tíma vissi ég ekkert um þörunga, sá bara fyrir mér gróður í fiskabúrum. Fyrsta vinnan mín var hjá Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði, þá varði ég einu sumri í að labba fjörur og hjálpa til að kortleggja hvaða tegundir væru þar. Svo var ég með aukaverkefni um nýtingu þeirra bæði að fornu og nýju. Síðar kortlagði ég um það bil hálfa strandlengju Íslands, með tilliti til vaxtarsvæða.“

Þörungar þurfa grjót og kletta til að festa sig við og þar er hægt að ná þeim ferskum allan ársins hring, að sögn Eydísar. Hún telur Skandinava ekki hafa nýtt þá til forna, en þekkingin hafi borist til Íslands með fallegu konunum sem víkingarnir tóku með sér frá Írlandi. „Þannig lærðu Íslendingar að nota þennan sjávargróður, sölin, purpurahimnuna og fleira ætilegt og það bjargar mörgum frá því að deyja úr skyrbjúg. En eftir síðari heimsstyrjöld varð fæðið fjölbreyttara í landinu og við hættum að pæla í sölum sem undirstöðu. Því hefur okkur skort kunnáttu til að búa til góðan mat úr þörungum en þar kemur bókin inn. Hún fræðir okkur meðal annars um hvernig hægt að búa til veislumáltíð úr þessum vannýttu gjöfum náttúrunnar.“