Brátt verða hundrað ár liðin frá því flugvél hóf sig fyrst á loft á Íslandi. Vagga flugsins stóð í Vatnsmýrinni og í dag, klukkan 17.30, verður Arnþór Gunnarsson, sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi, með fyrirlestur um flugvallargerðina á árum seinni heimsstyrjaldar. Fyrirlesturinn er á Hótel Reykjavík Natura, við flugvöllinn og er öllum opinn. En hvernig skyldi Arnþóri hafa gengið að finna heimildir um þessa miklu framkvæmd? „Auðvitað þarf maður alltaf að grafa en ég bjó að því þegar ég byrjaði á þessu verkefni að hafa skrifað BA-ritgerð í sagnfræði 1990 um samskipti bæjaryfirvalda í Reykjavík og herstjórnarinnar bresku á árunum 1940 og 1941. Þar spilaði Reykjavíkurflugvöllur stóra rullu því hann var stærsta einstaka framkvæmdin hjá Bretum.“

Það voru Íslendingar sem hófu flugstarfsemi í Vatnsmýrinni, að sögn Arnþórs. „Þeir gerðu grasflugbrautir í upphafi og sumarið 1940, rétt fyrir hernám, lögðu þeir bráðabirgðaflugbraut á mel frá Öskjuhlíðinni vestur á Mela. Bæjarráð Reykjavíkur samþykkti flugvöll í Vatnsmýrinni í mars 1940. En það samþykki miðaðist örugglega við þær fyrirætlanir sem íslenskir flugrekendur og áhugamenn höfðu og þær voru minni í sniðum en sá flugvöllur sem Bretar gerðu síðan. Flugvöllur er ekki það sama og flugvöllur, frekar en bíll og bíll!“

Fyrir voru tún í Vatnsmýrinni og því hafði hún verið ræst að hluta. „Það voru nokkur býli á þessu svæði, þannig að landið var nýtt til búskapar. Þegar fyrstu flugbrautirnar voru gerðar brúuðu menn skurðina með hlerum til að ná þeirri flugbrautarlengd sem þurfti fyrir þær vélar sem þá voru til staðar. Þessar brýr sjást á loftmyndum frá stríðsárunum. En Bretar þurftu að þurrka mýrina meira upp og svo Íslendingar enn frekar eftir stríð, þegar stærri og þyngri flugvélar voru komnar, meðal annars til millilandaflugs. Þá voru líka komnar öflugri vélar til skurðgraftar, allt svoleiðis kom með hernum, einkum þeim ameríska.“

En býst Arnþór við rifrildi um hvort völlurinn eigi að fara eða vera, eftir sinn fyrirlestur? „Ekki svo ég viti. Það stendur allt sem ég segi. En deilur um hvar flugvöllurinn ætti að vera hófust um miðjan 4. áratuginn þegar flugmálaráðuneyti ríkisins var stofnað og Agnar Kofoed Hansen varð flugmálastjóri. Þá strax voru skiptar skoðanir um hvort völlurinn ætti að vera í Vatnsmýrinni eða í Kringlumýrinni, vegna þess að byggðin var þegar nálægt og menn voru meðvitaðir um að hún mundi vaxa. En í Vatnsmýrinni er hann enn og það er magnað að umræðan um staðsetningu hans skuli hafa verið í gangi allan þennan tíma.“