Við erum með gríðarlega öfluga björgunarsveit, bara út af staðsetningu, en alvarlegum útköllum á sjó hefur fækkað mikið síðustu ár, sem betur fer,“ segir Bogi Adolfsson, formaður Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns í Grindavík. Hún er níutíu ára um þessar mundir. „Þegar ég byrjaði í björgunarsveitinni um síðustu aldamót voru um 60 útköll á sjó á ári. Nú eru þau tvö til fjögur á stóra björgunarskipinu en við erum í minni verkefnum á smærri skipum. Hins vegar er meira að gera á landi núna við að aðstoða vegfarendur, sjúkrabíl, lögreglu, Vegagerð og taka þátt í leitum.“

Bogi kveðst hafa gengið í björgunarsveitina af því að vinahópurinn var í henni. „Ég var forvitinn,“ segir hann til skýringar. „Frá því ég byrjaði höfum við dregið hér fraktara inn og farið í alls konar strönd. Fyrsta útkallið mitt var þegar flutningaskipið Bremerflagge slitnaði upp í höfninni í febrúar 2000 og skuturinn stefndi upp á land. Við vorum skoppandi um í slöngubát þegar ég sá verkefnið og sagði við strákana: „Ég á nú ekkert heima hér alveg strax.“ Þetta var áður en ytri varnargarðarnir komu og sjóirnir gengu yfir okkur, við vorum í hálfu kafi að reyna að binda þetta risaskip, einn var á vakt og og kallaði „fylla“ þegar hann sá ölduna koma. En verkið tókst og eftir þetta útkall var ég orðinn bitinn af bakteríunni.“

38 manna áhöfn bjargað

Félagar í Þorbirni hafa marga hildi háð á þessum 90 árum, að sögn Boga. Kannski beri hæst atvik í árdaga sveitarinnar þegar þeir björguðu 38 manna áhöfn af CAP Fagnet sem strandaði við Hraun, í mars 1931. Þá segir hann fluglínutæki hafa verið notað í fyrsta sinn við björgun hér á landi. „Bæði skrúfa og varaskrúfa skipsins eru uppstilltar fyrir framan hús sveitarinnar í Grindavík. Þeim var náð á land eftir um áttatíu ár í sjónum og þar má glöggt sjá hvernig undist hefur upp á aðalskrúfuna þegar skipið rak upp í fjöru. Þar er líka ankerið úr því,“ bendir hann á.

Nú er til guðs lukku orðið fátítt að bátar farist, það má þakka endurnýjun flotans og árvekni útgerða og sjómanna, að sögn Boga. Hann segir Slysavarnaskóla sjómanna eiga sinn stóra þátt í því. „Við erum líka vel tækjum og flotgöllum búin, þökk sé bæði fyrirtækjum og sjómanna- og vélstjórafélögum. Við höfum alltaf notið góðs af þeirra hugarfari.“

Líta á starfið sem skóla

Bogi segir myndabók með stuttum textum úr sögu félagsins hafa verið komna á rekspöl þegar sá sem hélt utan um efnisöflun lést. Það verkefni hafi því siglt í strand. Einhver þurfi að bjarga því og draga það á flot aftur.

Milli 30 og 40 manns sinna útköllum hjá Þorbirni, þar af 15-20 manna kjarni sem mætir í hefðbundin útköll og fleiri ef um strand eða stærri atburði er að ræða. „Við sinnum landsbyggðinni líka eftir getu. Fórum með fullt af rafstöðvum á stórri kerru norður í óveðrinu í fyrra. Björgunarsveitarmenn líta almennt á starf sitt sem skóla eða ævintýri. Útkall er eins og að opna nýja bók, enginn veit hvað bíður.“

Á stórafmælinu. Fannar Jónasson bæjarstjóri, Bogi formaður og Helgi Einarsson, varaformaður Þorbjörns. Mynd/Kristín María Birgisdóttir