Það fæðast alltaf lög og ljóð annað slagið, ef ég fæ andrými,“ segir tónlistarkonan Valgerður Jónsdóttir á Akranesi og bætir við að á ferðalögum hellist gjarnan yfir hana hugmyndir. „Þegar ég er með fjölskyldunni á klifursvæðum sit ég stundum með gítarinn úti í bíl eða undir kletti og sem. Svo kemur andinn yfir mig líka hérna heima,“ segir hún glaðlega.

Hún mun gefa áheyrendum hlutdeild í sköpun sinni á tónleikum í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi í kvöld. Að þeim stendur Kalman – listafélag, sem Sveinn Arnar Sæmundsson organisti heldur utan um, að sögn Valgerðar. „Hann er með gott starf og fær fólk hingað með alls konar tónlist.“

Meðal þess sem Valgerður ætlar að flytja er nýtt lag sem hún samdi við ljóðið Vorið eftir Brynju Einarsdóttur, skáldkonu á Akranesi, sem nú er látin. „Það er þriðja lagið sem ég geri við ljóð eftir Brynju,“ upplýsir hún. „Ég er líka með lag við ljóð eftir Davíð Stefánsson, það heitir Haust og er mjög fallegt.“

Valgerður á að baki fjölbreyttan feril í klassískri, popp- og þjóðlagatónlist. Hún stjórnar meðal annars kórum á Akranesi og kveðst hafa gaman af að semja og útsetja ofan í þá.

„Ég er líka oft að semja fyrir börn og er nýbúin að setja lögin á diskinum Völuskrín – glens og grín, á Spotify, drattaðist til þess í tilefni tíu ára afmælis plötunnar!“

Aðgangseyrir á Tóna og ljóð er 2.500 krónur en Kalmansvinir borga 2.000. Valgerður segir Vinaminni rúmgóðan sal, vissara sé samt að panta miða á netfanginuog hún tekur fram að tónleikarnir hefjist klukkan 20 í kvöld, fimmtudag.