Það eru þúsund handtök fjölmargra á bak við þessa búninga, segir María Th. Ólafsdóttir búningahönnuður í Kardemommubæ. Hún vann líka búninga fyrir sama leikrit fyrir ellefu árum, í leikstjórn Selmu Björns. „Það var skemmtilegt og mikil áskorun í hruninu og ég var stolt af útkomunni,“ segir María. „Nú ákvað ég að taka nýjan vinkil og ögra bæði sjálfri mér og hefðinni, án þess að fara út fyrir þann ramma sem höfundurinn Torbjörn Egner hafði viljað. Ég stúderaði hann og komst að því að hann fór í ferðalag til margra borga og landa en ekkert kveikti sérstaklega í honum fyrr en hann kom til Sikileyjar og þó sérstaklega Marokkó. Þar var líka kardemommuilmur í loftinu.“

Tveimur árum eftir að Egner kom heim til Noregs aftur byrjaði hann að skrifa Kardemommubæinn,“ að sögn Maríu. „Þá blönduðust karakterar sem hann ólst upp með í úthverfi Oslóar, eins og kaupmaðurinn og Sörensen rakari, við framandi dýr og áhrif frá Marokkó og úr varð þessi undarlega suða.“

María segir leikstjóra og hönnuði sýningarinnar hafa ákveðið „að fara alla leið,“ eins og hún orðar það. „Ágústa Skúla leikstjóri er grínisti og alltaf til í ævintýri og Högni Steinþórs leikmyndasmiður sagði: „Þetta er akkúrat það sem mig langaði að gera.“ Við bjuggum til alls konar dýr úr endurunnum efnum, mynduðum umbúðir sem við létum prenta á efni í London og máluðum strá sem við notum. Einhvern veginn small allt saman. Svo vorum við með snillinga í grímugerð og sminki og saumastofan er full af ótrúlegu starfsfólki. Berglind Einars, sem þar er yfir, hefur stýrt þessu verkefni af list.“

Frumsýningin átti að vera í apríl en frestun varð á frestun ofan vegna COVID. „Við héldum bara áfram að vinna allan tímann og úr varð ævintýraheimur sem Kardemommubærinn er svo sannarlega,“ lýsir María.

Börnin sem taka þátt í sýningunni eru á þriðja tug, það er tvöfalt kast. En voru ekki einhver þeirra vaxin upp úr búningunum meðan á biðinni stóð? „Jú, það voru brögð að því, en þegar frumsýningar eru skipulagðar að vori og búist við að sýningar færist milli leikára eru jafnan hafðir djúpir faldar á barnabúningum, börn taka vaxtarsprett yfir sumarið eins og blómin.“

María fór í ævintýragír og hannaði búningana í anda höfundar. Fréttablaðið/Anton