Jarðfræðingurinn Melkorka Matthíasdóttir féll fyrir leirlistinni þegar hún gekk í gegnum erfiða tíma.

Sýningin Og hvað um tað? verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar í dag þar sem Melkorka Matthíasdóttir sýnir kera­mik­muni sem unnir eru á áhugaverðan hátt. Melkorka er lærð jarðfræðingur en skellti sér í leirlistina þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2021.

„Það er oft skrítið hvernig lífið beinir manni í einhverjar áttir,“ segir Melkorka um áhugann á leirlistinni sem kom í upphafi ekki til af góðu. „Ég fékk brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017 og var í meðferðum og tilheyrandi stússi allt árið.“

Í bataferlinu kynntist Melkorka endurhæfingarstöðinni Ljósinu þar sem hægt er að dunda sér við alls konar handverk.

„Ég gleymdi mér alveg í leirnum,“ segir hún og hlær. „Ég ákvað, þegar ég komst út úr þessu öllu saman, að skrá mig í diplómanám í Myndlistarskólanum og sjá hvert það myndi leiða mig.“

Melkorka lýsir því að í upphafi hafi henni þótt eins og hún væri svolítið að svíkja jarðfræðina en það breyttist fljótt.

„Leirinn er einmitt jarðfræði algjörlega í hnotskurn!“ segir hún og hlær. „Þar fann ég þennan sameiningarmátt því ég heillaðist af jarðfræðinni á sínum tíma og er náttúrunörd í mér.“

Aldagömul aðferð

Sýningunni er lýst sem óði til íslenskrar náttúru og nýtir Melkorka meðal annars gróður og tað í verk sín.

„Það eru margir listamenn sem nýta glerung úr eldfjallaösku í leirnum sínum en mig langaði að prófa að fara aðrar leiðir,“ segir hún. „Ég fór að kynna mér fortíðina og hvernig glerungur varð til fyrir um tvö þúsund árum.“

Þar komst hún að því að glerungurinn var unninn í viðarbrennsluofnum sem leirkerin voru sett í. Viðaraskan í brennslunni datt ofan á leirkerin og myndaði þennan hjúpkennda glerung sem gerir kerin vatnsheld og sterkari.

„Glerungagerðin þróaðist út frá þessu en mig langaði að prófa að nýta alls konar ösku með því að brenna sjálf plöntur og annað,“ segir Melkorka. „Svo komst ég að því að það var rosaleg vinna að brenna þetta efni og askan sem varð eftir var oft mjög lítil.“

Tað og beyki

Melkorka velti þá fyrir sér hvar hún gæti náð sér í auðfengna ösku sem einhver annar hefði brennt.

„Þá varð mér hugsað til þess þegar ég fór í laxveiði og lét síðan reykja laxinn fyrir mig í Reykofninum í Kópavogi,“ segir hún. „Ég talaði við Kára þar sem fannst þetta svo skemmtileg hugmynd að hann var alveg til í að láta mig fá öskuna sem þeir eiga nóg af.“

Í reykofnunum er annars vegar notað beyki og hins vegar tað.

„Það kom svo í ljós að taðið kom mjög skemmtilega út í leirlistinni,“ segir Melkorka. „Ég prófaði tvenns konar ösku og er að sýna glerungana úr þessum efnum og muninn á þeim á sýningunni. Taðið gefur glans og er glermyndari því það er svo mikill kísill í grasi, og þar af leiðandi í taði. Beykiaskan er svo öðruvísi því hún inniheldur minni kísil og er stundum erfið viðureignar en samt rosa falleg.“

Sýningin stendur yfir til 3. febrúar í Listasal Mosfellsbæjar.