„Ég ætlaði alltaf að gera þetta á morgun – og loksins rann sá morgunn upp. Það var víst kominn tími til!“ segir Guð­mundur Óli garð­yrkju­bóndi glað­lega um út­gáfu hljóm­disks með 38 ára gömlum upp­tökum. Hann er tón­listar­maður og garð­yrkju­bóndi í Leyni í Blá­skóga­byggð og lögin eru eftir hann sjálfan en textarnir eftir Ragnar Inga Aðal­steins­son, skáld og fræði­mann.

Óttar Felix í Zonet-út­gáfunni gefur plötuna út og dreifir henni, auk þess sem hún er að­gengi­leg á Spoti­fy.
Mynd/Aðsend

Spurður hvort hann hafi byrjað ungur að semja tón­list svarar Guð­mundur Óli: „Já, mamma átti gítar og spilaði á hann og ég fékk alveg dellu fyrir honum þegar ég var svona ellefu ára. Þá voru Bítlarnir upp á sitt besta og kveiktu í mér – ég sá ekkert annað og tón­listin varð upp frá því mikið á­huga­mál sem tók á sig ýmsar myndir.“

Fínir músíkantar

Óttar Felix í Zonet-út­gáfunni gefur plötuna út og dreifir henni, auk þess sem hún er að­gengi­leg á Spoti­fy, að sögn Guð­mundar Óla. „Þetta eru níu lög og flytj­endur með mér eru fínir músíkantar, Pálmi Gunnars­son, Jón Kjeld Seljeseth, Ólafur Labbi Þórarins­son og bróðir hans, Björn Þórarins­son, Gunnar Jóns­son, Smári Kristjáns­son og Þor­steinn Magnús­son, að ó­gleymdum Gísla Helga­syni, flautu­leikara úr Eyjum. Svo var þetta allt tekið upp hjá Labba í Glóru. Ég er dá­lítið yngri en Labbi og ætlaði aldrei að manna mig upp í að hringja í hann. „Já, komdu bara með gítarinn og við skulum sjá hvað við getum gert,“ sagði hann. Svo var þetta alveg þræl­gaman.

Guð­mundur Óli segir upp­tökuna hafa verið gerða í bútum og setta saman. „Við vorum ekki teknir upp sem hljóm­sveit. Gísli Helga spilaði til dæmis flautuna inn á seinna. En svo fór ég í hljóm­sveit eftir þetta, hún hét Leyni­bandið og var dá­lítið vin­sæl á Suður­landi. Ég var reyndar oft í hljóm­sveitum en aldrei frægum, spilaði samt úti um allt, enda voru alls staðar böll í gamla daga!“ Leyni­bandið hefur sem sagt ekki bara spilað í leyni, segi ég og þykist sniðug. „Nei, en það miðast allt við Leyni þar sem ég fæddist og bý enn í dag!“

Smíði, söngur og sjó­mennska

Að­spurður kveðst Guð­mundur Óli hafa kynnst texta­höfundinum Ragnari Inga á Laugar­vatni. „Þá vorum við þar í byggingar­vinnu og brölluðum ýmis­legt, sungum saman á þorra­blótum, þá texta eftir hann, hann er svo mikið skáld. Svo fórum við saman á sjó frá Eyrar­bakka en myndin af okkur á plötunni var bara tekin núna um daginn og þar erum við að hefja okkur til flugs!“